Fyrrum leikmaður Íslandsmeistara Vals Pavel Ermolinskij hefur samkvæmt bréfi í Skessuhorni lagt skóna á hilluna.
Nú í sumar hafði hann tilkynnt stuðningsmönnum félagsins að hann myndi ekki taka annað tímabil með þeim, en gaf þá ekki út hvort hann myndi róa á önnur mið fyrir komandi tímabil.
Bréfið sem Pavel ritar í Skessuhorni ber nafnið Kveðja frá Pavel Ermolinskij og fer hann yfir uppvöxt sinn í Borgarnesi og þær góðu móttökur sem hann og hans fjölskylda fengu þegar þau komu þangað. Bréfið í heild er hægt að lesa hér.
Upphaflega byrjaði Pavel að spila körfubolta með Skallagrím í Borgarnesi, þó svo að hans fyrsti meistaraflokksleikur hafi verið með ÍA á Akranesi árið 1998. Á 24 ára löngum feril sem leikmaður lék hann ásamt ÍA fyrir Skallagrím, ÍR, Val og lengst af KR. Þá lék hann einnig sem atvinnumaður á meginlandi Evrópu fyrir lið í Svíþjóð, á Spáni og í Frakklandi
Á Íslandi var hann í átta skipti Íslandsmeistari, þrisvar bikarmeistari og í tvö skipti var hann valinn leikmaður ársins. Þá lék hann einnig 76 landsleiki fyrir Ísland á tímabilinu 2004 til 2022, þar sem hann meðal annars fór í tvígang á lokamót EuroBasket, 2015 og 2017.