spot_img
HomeFréttirPavel: Hlusta ekki á neitt rugl um að Grindvíkingar séu illa stemmdir

Pavel: Hlusta ekki á neitt rugl um að Grindvíkingar séu illa stemmdir

 
Mikið mun mæða á Pavel Ermolinskij í KR-liðinu í dag þegar vesturbæingar mæta Grindavík í slagnum um Poweradebikarinn í karlaflokki kl. 16:00 í Laugardalshöll. Pavel er að spila sinn fyrsta bikarúrslitaleik á ferlinum en ætlar ekki að taka þátt í einhverju sálfræðistríði sem Grindvíkingar eiga að hafa sett upp.
,,Ég horfði á bikarúrslitaleikinn í fyrra, var í fínu sæti í stúkunni en ég hef aldrei spilað til bikarúrslita svo þetta verður fín upplifun,” svaraði Pavel um sína tengingu við bikarkeppnina. ,,Þetta er stærsti leikurinn en ég hef aldrei unnið neinn stóran titil sem leikmaður svo þetta er nýtt og það verður örugglega einhver fiðringur í maganum,” sagði Pavel og gerir sér grein fyrir því að 20 ár af væntingum hvíla á herðum hans í vesturbænum.
 
,,Maður finnur alveg fyrir pressunni í vesturbænum, stuðningsmenn liðsins vilja fá bikarinn og fá hann núna! Það er 20 ára afmæli núna og það hljómar vel að koma með bikarinn aftur heim eftir 20 ár, það selur sko,” sagði Pavel og bauð upp á athyglisverða kenningu.
 
,,2009 tapaði KR viljandi, 18 ár á milli bikarmeistaratitla er bara leiðinleg tala, nú eru 20 ár og nú tökum við þetta.”
 
Þið í KR eru ósigraðir á nýja árinu, mætið þið kokhraustir til leiks?
,,Nei, við erum illa stemmdir og eitthvað,” sagði Pavel léttur í bragði. ,,Maður heyrir samt á Grindvíkingum að allt sé hundfúlt hjá þeim og að það verði bara kraftaverk ef þeir vinni svo ég ætla bara að taka þátt í sama leiknum. Ég segi bara að við séum illa stemmdir og að þetta eigi eftir að verða erfitt og við verðum bara heppnir ef við vinnum, það geta tveir leikið þennan leik, það þýðir ekki að koma allri pressunni á okkur,” sagði Pavel ákveðinn.
 
,,Grindavík er með frábært lið og ég ætla ekki að hlusta á neitt rugl um að þeir séu eitthvað illa stemmdir. Það eru frábærir körfuboltamenn í liðinu hjá þeim og enginn hjá okkur er að kaupa þetta harmakvein. Þetta er eitthvað sálfræðistríð sem þeir eru byrjaðir á og við tökum ekki þátt í því.”
 
Poweradebikarúrslit í Höllinni í dag
13:30 KR-Keflavík í kvennaflokki
16:00 KR-Grindavík í karlaflokki
 
Miðasala á www.midi.is  
 
Fréttir
- Auglýsing -