Ástralinn Patty Mills sem nýverið varð NBA meistari með San Antonio Spurs verður ekki í ástralska landsliðsbúningnum í september þegar hans menn frá „down under“ mæta á Heimsmeistaramótið á Spáni.
Mills er á leið í axlaraðgerð á næstu dögum og búist við því að hann gæti orðið frá allt að sjö mánuði sem þýðir að hann yrði jafnvel ekki orðinn rólfær með Spurs í NBA deildinni fyrr en á nýju ári.
Til að bæta gráu ofan á svart fyrir leikmanninn þá komu þessi tíðindi beint ofan í markaðsveisluna sem samningaviðræður við leikmenn með lausa samninga eru en Mills hefði líklegast fengið þau nokkur gylliboðin enda lauk hann tímabilinu með 17 stigum í leik 5 í úrslitunum gegn Miami Heat.
Ástralir gráta þessi tíðindi líklega sárann en liðið er með Angóla, Kóreu, Litháen, Mexíkó og Slóveníu í riðli á HM sem fram fer 30. ágúst – 14. september á Spáni.