spot_img
HomeFréttirPálmi: Valur þarf að sætta sig við tap í kvöld!

Pálmi: Valur þarf að sætta sig við tap í kvöld!

14:40
{mosimage}

(Pálmi Sævarsson)

Pálmi Sævarsson annar tveggja þjálfara Skallagríms segir að fyrrum lærimeistari sinn Valur Ingimundarson þurfi að sætta sig við tap í Borgarnesi í kvöld þegar Njarðvíkingar koma í Fjósið kl. 19:15. Pálmi segir að sínir menn mæti brjálaðir til leiks og ætli sér að finna sinn fyrsta sigur.

,,Leikurinn leggst vel í mig þannig lagað. Við erum kannski ekki alveg í bestu aðstöðunni þessa dagana með bæði mannskap og annað en það eru allir staðráðnir í því að gera sitt besta og við reynum alltaf að hafa gaman af þessu og sjáum hvað það fleytir okkur langt,“ sagði Pálmi í samtali við Karfan.is í dag.

,,Maður hefur sagt það milljón sinnum að liðið okkar er nánast reynslulaust og einu mennirnir með reynslu meiðast jafn harðan,“ sagði Pálmi en Egill Egilsson sem tók fram skóna að nýju í sumar er meiddur, Hafþór Ingi er meiddur og sömuleiðis þeir Áskell og Finnur.

,,Við munum bæta við okkur erlendum leikmönnum og þau mál skýrast um helgina og það koma væntanlega tveir erlendir leikmenn til liðs við okkur,“ sagði Pálmi og bætti við að markmiðið væri að rífa upp stemmninguna í Borgarnesi enda nokkur lægð yfir botnliðinu um þessar mundir.

,,Við erum með öflugan drengjaflokk og þeir halda bara áfram að spila og hafa spilað helling hingað til þó þetta sé kannski fullmikið fyrir þá sem fyrstu skrefin þeirra í úrvalsdeild. Þetta er samt örugglega kærkomin reynsla og mikilvægt fyrir þeirra framtíð að sjá að þeir fá tækifæri og það verður vonandi hvatning fyrir enn yngri krakka hér í bæ. Hjá okkur eru þrír 15 ára strákar og einn búinn að spila nokkrar mínútur þanngi að maður er orðinn lang lang elstur í þessu liði,“ sagði Pálmi og var engan bilbug á honum að finna fyrir leik kvöldsins.

,,Njarðvík er hörkulið sem hefur lent í svipuðum hremmingum og við en hafa engu að síður fengið inn sterka og reynda menn á borð við Loga og Magnús. Njarðvíkingar eru með góðan þjálfara sem við Borgnesingar þekkjum og Valur þarf að sætta sig við það að tapa enn einum leiknum í kvöld,“ sagði Pálmi og bætti við að sínir menn myndu mæta brjálaðir til leiks og hafa gaman af verkefninu.

Skallagrímur er á botni deildarinnar án stiga eftir fimm leiki og spurning hvort þeim takist að snúa við blaðinu í kvöld þegar þeirra gamli lærifaðir Valur Ingimundarson mætir í Fjósið.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -