22:00
{mosimage}
Verðlaunahafar á lokahófi Grindavíkur
Páll Axel Vilbergsson og Hildur Sigurðardóttir voru kjörin bestu leikmenn ársins hjá körfuknattleiksdeild UMFG á lokahófi í gær.
Þau voru ekki þau einu sem fengu viðurkenningar fyrir frammistöðuna í vetur en í karlaflokki var Ólafur Ólafsson verðlaunaður fyrir mestar framfarir og Þorleifur bróðir hans var valinn besti leikmaður liðsins í úrslitakeppninni.
Í kvennaflokki var Ingibjörg Jakobsdóttir valin efnilegust og þær Jovana Lilja Stefánsdóttir og Petrúnella Skúladóttir deildu með sér titlinum verðmætasti leikmaður liðsins.
Við þetta tækifæri fengu þrír aðilar silfurmerki UMFG en þeir voru Guðni Ölversson, Ægir Ágústsson og Ágúst Bjarnason.
Mikið var um dýrðir á hátíðinni, sem fór fram í Festi. Meðal þeirra sem komu fram voru Jónsi, sem naut fulltingis heimafólks úr salnum og var plataður úr að ofan í tilefni dagsins.
Þá trylltu salinn æringjarnir góðkunnu, Raggi Bjarna og Þorgeir Ástvalds, með sínum elstu og bestu perlum og var tekið undir svo allt ætlaði um koll að keyra.
Þá voru á dagskrá hefðbundnir liðir eins og happadrætti þar sem góðir vinningar voru í boði, og Páll Óskar og Milljónamæringarnir tóku völdin eftir það. Það kom svo í hlut Ragga Bjarna að klára kvöldið sem er óhætt að segja að hafi tekist vel í alla staði.Veglegt myndasafn frá hófinu er að finna á heimasíðu Víkurfrétta.
Frétt af www.vf.is
Mynd: VF-myndir/Þorgils