spot_img
HomeFréttirPáll Axel: Enginn farinn á flug í okkar herbúðum

Páll Axel: Enginn farinn á flug í okkar herbúðum

,,Ég er búinn að heyra svolítið af því að Grindavík þurfi að gyrða sig í brók eftir síðustu leiki sem við höfum verið að spila. Þessi lið sem við höfum verið að mæta fá bara ,,kredit“ frá mér því við höfum verið í hörkuleikjum gegn liðum eins og Fjölni sem m.a. vann KR og þetta getur farið á alla vegu. Við höfum verið að klára leikina og það skiptir máli þó það hafi oft ekki verið fallegt,“ sagði vígreifur Páll Axel Vilbergsson eftir sigur Grindavíkur á KR í Iceland Express deild karla í kvöld. Grindvíkingar hafa ekki þótt verið að sýna sparihliðarnar undanfarið en létu glitta í vígtennurnar í kvöld.
Aðspurður hvort menn fari nú ekki í síauknum mæli að spá Grindavík titlinum svaraði Páll: ,,Mér er alveg sama hvað aðrir segja, við erum með okkar markmið innan hópsins og stefnum hratt að þeim og vinnum samkvæmt þeim,“ sagði Páll en er óhætt að kasta því fram að sigurinn hafi verið fyrirhafnarlítill, þannig leit það a.m.k. út úr stúkunni.
 
,,Þetta var kannski fyrirhafnarlítið af því að menn voru búnir að leggja mikið á sig, sú vinna var aftur á móti ekki fyrirhafnarlítil.“
 
Oft er rætt um að Grindvíkingar hafi marga sterka sóknarmenn innanborðs. Að halda KR í 59 stigum á heimavelli ættu menn þá ekki frekar að tala um varnargetu liðsins? ,,Mér er alveg sama hvað menn tala um, vörnina eða annað. Ef við tökum þennan leik þá spiluðum við hörku vörn og menn stigu upp sóknarlega eins og Bullock sem var alveg eitraður. Við eigum fullt af vopnum en það er sama hvort við tölum um vörn eða sókn, þá er þetta fyrst og fremst liðsheildin sem gildir í vörn og sókn.“
 
Er Grindavíkurliðið fært um að halda báðum fótum á jörðinni eftir svona gott gengi og sterkan sigur eins og í kvöld?
 
,,Já já, það er enginn farinn á flug í okkar herbúðum, allavega ekki að mér vitandi og ekki ég sjálfur. Ef einhver fer á of mikið flug er það örugglega mitt hlutverk að gíra það aftur niður. Við erum ekki búnir að vinna neitt, ekki nokkurn skapaðan hlut. Við eigum meira að segja eftir að bæta okkur helling og höfum þessi markmið okkar sem við vinnum að sem lið.“
 
 
  
Fréttir
- Auglýsing -