spot_img
HomeFréttirPáll Axel: Eigum sömu möguleika og önnur lið

Páll Axel: Eigum sömu möguleika og önnur lið

15:55 

{mosimage}

 

 

Körfunetin í Röstinni voru í stórhættu í gærkvöldi þegar Páll Axel Vilbergsson datt í banastuð og skaut Keflvíkinga í kaf í Iceland Express deild karla í körfuknattleik. Grindavík hafði betur í leiknum 116-99 og gerði Páll Axel 40 stig í leiknum og hitti úr 9 af 10 þriggja stiga skotum sínum.

 

,,Þetta var fínn leikur hjá okkur en það skiptir víst litlu máli hvort við endum í 5.-6. sæti því heimavallarrétturinn í fyrstu umferð úrslitakeppninnar verður ekki okkar megin. Leikurinn í gærkvöldi var vissulega gott veganesti inn í úrslitakeppnina en þetta var skrýtinn leikur en ágætlega leikinn af okkar hálfu,” sagði Páll í samtali við Víkurfréttir.

 

,,Nú er ný keppni að hefjast, úrslitakeppnin, og við erum kannski ekki í bestu stöðunni en eigum sömu möguleika og önnur lið á því að vinna Íslandsmeistaratitilinn.”

 

Aðspurður hvort það væri ekki áhyggjuefni hversu mörg stig Grindvíkingar væru að fá á sig í hverjum leik svaraði Páll: ,,Við höfum haft áhyggjur af þessu og höfum ekki verið að spila sérstakan varnarleik og alls ekki spilað vel í vetur og stefnum að því að snúa við blaðinu. Við gerðum breytingar í vikunni og ég held bara að það sé fínt fyrir liðið að hafa losnað við Clemmons og tel að við spilum betur án hans,” sagði Páll Axel en Grindavíkurliðið gerir sterkt tilkall í Íslandsmeistaratitilinn ef Páll leikur áfram eins og hann gerði gegn Keflvíkingum í gærkvöldi.

 

Frétt og mynd af www.vf.is

Fréttir
- Auglýsing -