Karfan.is heyrði í Pálínu Gunnlaugsdóttur eftir leikinn gegn Snæfelli í kvöld. Snæfell hafði af 15 stiga sigur í fjarveru Helenu Sverrisdóttur. Pálína var þó á því að þetta hefði getað farið á annan veg þrátt fyrir það.
"Mér fannst við tapa þessu í öðrum leikhluta," sagði bakvörðurinn knái. "Við töpuðum alltof mikið af boltum og vorum klaufar. 3 tapaðir boltar voru bara af þvi við vorum ekki að grípa boltann. Við náðum ekki að skora í 7 mínútur í 2. leikhluta.
Pálína sagði auðvitað muna um Helenu. "Við erum óvanar að spila án hennar og hún er okkar helsti skorari. Við vorum samt í jöfnum leik fyrstu 10 mínúturnar og leit þetta vel út hjá okkur. Þetta var orðið of stór biti til þess að kyngja.
Pálína sagði Haukakonur þó hvergi nærri hættar. "Það er margt jákvætt og mjög margir litlir hlutir sem við getum lagað. Lið hafa ekki efni á því að missa besta leikmanninn sinn og fannst mér við spila ágætlega í 30 mínútur en leikurinn er víst 40!"
Hversu mikið spilaði fjarvera Helenu í þessu tapi að mati Pálínu? "Við vinnum sem lið og við töpum sem lið! En eins og ég segi það er erfitt fyrir öll lið að missa skipstjórann sinn, hvort sem það eru við eða Snæfell."
Haukar fengu aðeins eitt vítaskot í leiknum. Hvaða skýringar hefur Pálína á því?
"Við vorum bara ekki nógu aggressívar. Mér fannst dómararnir standa sig vel."
En hver er staðan á Helenu og meiðslum hennar?
"Eins og staðan er núna þá er hún meidd – ég veit ekki hvort hún spilar meira á þessu tímabili, en vonandi verður hún með. Hún er harðjaxl og spilar leikina sem eftir eru ef hún getur. En stundum eru meiðslin það alvarleg að það er ekki hægt að harka það af ser."
Mynd: Axel Finnur