Reykjanesbæjarrimma verður á boðstólunum í 8-liða úrslitum Poweradebikarkeppni kvenna þar sem Njarðvík og Keflavík drógust saman. Pálína María Gunnlaugsdóttir nýkjörin íþróttamaður Reykjanesbæjar 2011 var viðstödd bikardráttinn í höfuðstöðvum Vífilfells í dag en hún hefur aldrei skilið þessi illindi milli grannanna í Reykjanesbæ.
Pálína sagði í Viðtali við Víkurfréttir þegar hún var útnefnd íþróttamaður Reykjanesbæjar að hún hefði aldrei skilið þennan kala á milli Njarðvíkur og Keflavíkur. Við inntum hana þá eftir því hvort hún myndi nú ekki taka þátt í honum núna þegar grænar eru andstæðingar þeirra í bikarnum?
,,Nei nei og ég skil þetta ekkert ennþá,“ sagði Pálína hress í bragði. ,,Þetta er bara eins og hver önnur rimma fyrir mér og ég er spennt fyrir því að fara í Njarðvík og spila vel. Þær unnu okkur með einhverjum 40 stigum síðast þannig að við eigum harma að hefna gegn þeim.“
Varst þú búinn að ímynda þér einhvern sérstakan andstæðing í 8-liða úrslitum?
,,Nei, maður býst svo sem við öllu enda jafn miklar líkur á því að fá eitthvert þessara liða í drættinum og ég er bara ánægð að dragast á móti Njarðvík. Það er svo sem ekki til neinn óskamótherji í bikarnum,“ sagði Pálína en við létum krók mæta bragði…
Ekki einu sinni 1. deildarliðin?
Nei, þú þarft að fara í gegnum sterk lið til að verða bikarmeistari og þetta er aldrei gefins.“