spot_img
HomeFréttirÓvíst hvort Ragna Margrét fari með til Portúgal

Óvíst hvort Ragna Margrét fari með til Portúgal

Íslenska kvennalandsliðið er á leið til Portúgal í þessari viku þar sem leikið verður við heimakonur í forkeppni EuroBasket 2017. Leikurinn fer fram næsta laugardag, 20. febrúar, og óvíst er hvort miðherjinn Ragna Margrét Brynjarsdóttir geti verið með.

Ragna Margrét var ekki með Stjörnukonum í síðasta deildarleik vegna hnémeiðsla en Ívar Ásgrímsson landsliðsþjálfari sagði við Karfan.is í dag að mögulega gætu orðið einhverjar breytingar á þeim hóp sem tók þátt í leikjunum gegn Ungverjum og Slóvökum.

„Við fáum að vita með meiðsli Rögnu Margrétar í kvöld og þá ákveðum við hvernig 14 manna hópurinn verður. Þetta verður vonandi allt orðið ljóst í kvöld,“ sagði Ívar en hugsanlegt er að Ragna Margrét sé með rifinn liðþófa. Ívar sagði einnig að ef liðþófinn væri rifinn væri tvennt í stöðunni, að Ragna Margrét gæti og mætti spila og tæki svo gott sumarfrí vegna meiðslanna eða að hún yrði alveg frá vegna þeirra.

Ísland og Portúgal eru bæði án sigurs í E-riðli keppninnar og því von á miklum slag þegar liðin mætast í Ilhavo í Portúgal um helgina.

Fréttir
- Auglýsing -