7:29
{mosimage}
JÓN Arnór Stefánsson landsliðsmaður í körfuknattleik og félagar hans í Lottomatica Roma töpuðu í gærkvöldi á útivelli fyrir Siviglia Wear Teramo í ítölsku deildinni. Lokatölur í leiknum urðu 83:69 eftir að staðan hafði verið 48:34 í hálfleik.
Þetta var annar leikur Roma í deildinni en liðið sigraði í fyrsta leik sínum á dögunum. Jón Arnór var í byrjunarliðinu og lék í 25 mínútur í gærkvöldi og skoraði 10 stig í leiknum. Hann hitti úr einu skoti innan þriggja stiga línunnar og var með 50% nýtingu þar. Hann tók fimm þriggja stiga skot og hitti úr tveimur sem gerir 40% nýtingu og á vítalínunni var hann með 50% nýtingu, hitti úr tveimur af fjórum vítaskotum sem hann tók. Hann tók auk þess tvö varnarfráköst en ekkert í sókn.
Ítalska deildin er nýbyrjuð og var þetta fyrsti leikurinn í annarri umferðinni. Roma er sem stendur í níunda sæti með tvö stig en sextán lið eru í efstu deildinni á Ítalíu. Siviglia Wear Teramo er í öðru sæti en liðið tapaði fyrsta leiknum á dögunum. Tveir í leikmannahópi Roma léku ekkert í gærkvöldi og sjö léku meira en 20 mínútur.
Morgunblaðið
Mynd: www.virtusroma.it