Ísland lagði Ítalíu í Reggio Emilia í kvöld í fjórða leik sínum í undankeppni EuroBasket 2025. Eftir leikinn er Ísland með tvo sigra og tvö töp í undankeppninni.
Hérna er staðan í riðil Íslands
Fyrir leik
Rétt fyrir leik var það ljóst að Ítalía væri öruggt áfram á lokamótið. Þar sem Tyrkland sigraði Ungverjaland fyrr um kvöldið var það svo að Ungverjaland átti þess ekki kost lengur að ná Ítalíu í riðlinum og voru ítalir því öruggir á lokamótið. Öllu meiri barátta í stöðu íslenska liðsins í riðlinum, sem fyrir leik voru í þriðja sætinu með einn sigur og tvö töp, einum sigurleik fyrir ofan Ungverja sem voru á botni riðilsins án sigurs.
Fyrri leikur Ítalíu og Íslands fór fram síðastliðinn föstudag í Laugardalshöllinni og höfðu ítalir nokkuð öruggan sigur í þeim leik þrátt fyrir fína spretti íslenska liðsins.
Íslenska liðið í kvöld það nákvæmlega sama og lék heimaleikinn gegn Ítalíu á föstudaginn. Ítalir höfðu þó gert breytingar á hópi sínum, fengið inn fjóra sterka leikmenn sem þeir gátu ekki notað í leiknum á Íslandi vegna skuldbindinga leikmannana við EuroLeague lið sín.
Stærsta nafn þeirra leikmanna sem komu inn í ítalska hópinn Nicolo Melli sem í kvöld fékk að leika fyrir landsliðið á gamla heimavelli sínum í Palabigi höllinni í Reggio Emilia, en Melli er fæddur og uppalinn í borginni og steig hann sín fyrstu skref sem atvinnumaður árin 2007 til 2010 með liði Reggiana. Síðan þá hefur hann leikið fyrir mörg af sterkustu félögum Evrópu ásamt því að hafa í nokkur ár verið í NBA deildinni.
Byrjunarlið Íslands
Haukur Helgi Pálsson, Elvar Már Friðriksson, Jón Axel Guðmundsson, Ægir Þór Steinarsson og Tryggvi Snær Hlinason.
Gangur leiks
Líkt og leikinn fyrir helgi á Íslandi hófu okkar menn þennan af krafti. Leiddu með 6 stigum þegar tæpar sex mínútur voru búnar af fyrsta fjórðung, 4-10. Þjálfari íslenska liðsins róterar vel á leikmönnum sínum og koma einir níu leikmenn við sögu á fyrstu átta mínútunum. Ólíkt leiknum fyrir helgi nær Ísland að láta kné fylgja kviði og leiða með 13 stigum fyrir annan fjórðung, 9-22.
Í öðrum leikhlutanum gengur heimamönnum betur að koma boltanum í körfuna og þá eru þeir duglegir að koma sér á vítalínuna. Íslenska liðið nær ekki að svara þessu alveg nógu vel og munar aðeins stigi á liðunum þegar um þrjár mínútur eru til hálfleiks, 27-28. Undir lok hálfleiksins nær íslenska liðið þó nokkrum góðum stoppum og með herkjum fara þeir með þriggja stiga forystu til búningsherbergja, 29-32.
Stigahæstir fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum voru Jón Axel Guðmundsson með 9 stig og Elvar Már Friðriksson með 7 stig.
Ítalir eru snöggir að jafna og komast yfir á upphafsmínútum seinni hálfleiksins. Með ágætis svari sem endar á fallegum hornþrist frá Kristni Pálssyni heldur íslenska liðið þó í við heimamenn og jafna leikinn aftur þegar rúmar fimm eru eftir af þriðja, 41-41. Leikar haldast svo meira og minna jafnir út fjórðunginn, en fyrir lokaleikhlutann leiðir Ísland með tveimur stigum, 56-58.
Elvar Már Friðriksson hefur fjórða leikhlutann af krafti, fíflar vörn heimamanna í nokkur skipti, sem sér engan leik annan á borði en að senda hann á línuna og er Ísland komið átta stigum yfir þegar um sjö mínútur eru til leiksloka, 57-65. Áfram er Ísland með forystuna og eru þeir komnir 10 stigum yfir þegar fimm mínútur eru eftir, 60-70. Íslenska liðið heldur forystunni inn í brakmínútur leiksins og er munurinn 9 stig þegar tæpar tvær eru eftir, 69-78. Á lokamínútunum gerir liðið svo vel að sigla að lokum gífurlega sterkum sigur í höfn, 74-81.
Kjarninn
Íslenska liðið var virkilega flott í fyrri hálfleiknum í kvöld. Þjálfarateymið setti mikið traust í honum á leikmenn sem voru ekki í stórri rullu í leiknum fyrir helgi og stóðu þeir algjörlega undir því, helst til þá kannski Styrmir Snær Þrastarson og Bjarni Guðmann Jónsson, sem báðir voru frábærir fyrir liðið. Segja má að mögulega hafi meira sést af hinu gífurlega skilvirka liði ítala sem Ísland mætti fyrir helgi í seinni hálfleiknum. Munurinn í kvöld var kannski sá hvað íslenska liðið var miklu betur í stakk búið til að spila við þá. Svörðuðu áhlaupum þeirra og alltaf að kveða alla stemningu þeirra í kút.
Atkvæðamestir
Atkvæðamestir fyrir Ísland í kvöld voru Kristinn Pálsson með 22 stig, Elvar Már Friðriksson með 15 stig, 8 stoðsendingar og Jón Axel Guðmundsson með 15 stig.
Hvað svo?
Næstu leikir Íslands í undankeppninni eru í febrúar. Þá byrjar liðið á útileik gegn Ungverjalandi áður en undankeppninni er lokað með heimaleik gegn Tyrklandi. Þar er augljóst að horfa til mikilvægis leiksins úti í Ungverjalandi. Þar sem Ísland lagði Ungverjaland heima í fyrsta glugga keppninnar er frekar líklegt að þeim dugi að vinna Ungverjaland úti til að enda fyrir ofan þá í þessum fjögurra liða riðil, þar sem efstu þrjú komast á lokamót EuroBasket sem fram fer næsta haust.