spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÓtrúlegur eins stigs sigur ÍR í Skógarseli

Ótrúlegur eins stigs sigur ÍR í Skógarseli

ÍR lagði KR með minnsta mun mögulegum í Skógarseli í kvöld, 97-96.

Eftir leikinn eru liðin jöfn að stigum með 18 stig í 7. til 8. sæti deildarinnar, en ÍR í efra sætinu þar sem þeir eiga innbyrðisviðureignina.

Fyrir leik

Fyrri leik liðanna hafði ÍR unnið í byrjun desember í hörkuleik Meistaravöllum, 95-97. Í þeim leik var það Matej Kavas sem dró vagninn fyrir ÍR með 32 stigum á meðan Linards Jaunzems var með 21 stig fyrir heimamenn í KR.

Öllu meira var undir hjá báðum liðum fyrir leik kvöldsins með tilliti til baráttu þeirra um sæti í úrslitakeppninni. Fyrir leikinn KR í 7. sætinu með 18 stig, en ÍR aðeins einum sigurleik fyrir neðan þá með 16 stig, samt í 10. sætinu.

Gangur leiks

Heimamenn í ÍR byrjuðu leik kvöldsins betur, leiddu með 5 stigum eftir fyrstu andartök leiksins, 7-2. KR-ingar eru þó snöggir að ranka við sér og eru það þeir sem eru skrefinu á undan lungann úr fyrsta fjórðungnum. Munurinn átta stig að honum loknum, 23-31.

Heimamenn eru snöggir að vinna niður forskotið í upphafi annars leikhluta. Mikið til er það varnarlega þar sem þeir ná að stoppa og virðist KR á löngum köflum varla geta keypt sér körfu. Heimamenn ná aðeins að ganga á lagið og eru 4 stigum yfir þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 48-44.

Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Jacob Falko með 11 stig á meðan Linards Jaunzems var kominn með 20 stig fyrir KR.

Þrátt fyrir álitlegar tilraunir KR til að hrifsa forystuna tekst heimamönnum að hanga á henni inn í annan hálfleikinn. Sóknarlega meira bit í KR heldur en í öðrum leikhlutanum og virtust liðin hreinlega skiptast á að skora lengst af í þriðja fjórðungnum. ÍR þó á undan inn í lokaleikhlutann, ekki langt á undan, þremur stigum, 72-69.

Leikurinn helst nokkuð jafn inn í fjórða leikhlutann. ÍR þó áfram á undan, munurinn 4 stig þegar fimm mínútur eru til leiksloka, 86-82. Með stórum þrist frá Þóri Guðmundi Þorbjarnarsyni kemst KR á nýjan leik yfir (eftir töluverða bið) þegar rúmar tvær mínútur eru til leiksloka, 88-89. Inn í brakmínúturnar er leikurinn svo jafn og spennandi, en að lokum er það stór karfa frá Colin Pryor sem vinnur leikinn fyrir ÍR þegar um 12 sekúndur eru eftir. KR fær nokkur tækifæri til að vinna leikinn á lokasekúndunum, en allt kemur fyrir ekki, ÍR vinnur með minnsta mun mögulegum, 97-96.

Lokasókn KR í Skógarseli

Kjarninn

Þessi sigur vissulega var risastór fyrir ÍR í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni. Heilt yfir virðist staðan þó ekki vera skýrast neitt svakalega mikið þó aðeins tveir leikir séu eftir af tímabilinu. Barátta KR, ÍR, Keflavíkur og Þórs fyrir síðustu tvö sætin virðist ætla vera fram á síðasta leik.

Atkvæðamestir

Atkvæðamestir í liði ÍR í kvöld voru Matej Kavas með 23 stig, 7 fráköst, Jacob Falko með 20 stig, 4 fráköst, 4 stoðsendingar og Hákon Örn Hjálmarsson með 21 stig.

Fyrir KR var Linards Jaunzems stórkostlegur með 35 stig og 5 fráköst. Honum næstur var Þórir Guðmundur Þorbjarnarson með 23 stig, 7 fráköst og 8 stoðsendingar.

Hvað svo?

KR á leik næst komandi fimmtudag 13. mars heima á Meistaravöllum gegn Haukum. ÍR leikur degi seinna þann 14. mars heima í Skógarseli gegn Hetti.

Tölfræði leiks

Myyndasafn (væntanlegt)

Fréttir
- Auglýsing -