Íslandsmeistarar Keflavíkur höfðu betur gegn Grindavík í Blue höllinni í kvöld í 14. umferð Bónus deildar kvenna, 88-82.
Eftir leik er Keflavík í 2.-4. sæti deildarinnar með 18 stig á meðan Grindavík er í 9. til 10. sætinu með 6 stig.
Nokkrar breytingar voru hjá báðum liðum fyrir leik kvöldsins. Með Grindavík í fyrsta skipti voru tveir atvinnumenn, Daisha Bradford og Mariana Duran. Þá var Keflavík í fyrsta skipti undir stjórn nýrra þjálfara Sigurðar Ingimundarssonar og Jóns Halldórs Eðvaldssonar.
Leikurinn fór nokkuð fjörlega af stað, en að loknum fyrsta leikhluta var það Grindavík sem leiddi, 27-32. Keflavík svarar góðri byrjun gestanna úr Grindavík nokkuð vel undir lok fyrri hálfleiksins og standa leikar jafnir í hálfleik, 48-48.
Grindavík nær aftur að vera skrefinu á undan í upphafi seinni hálfleiksins, en heimakonur eru ekki langt undan, munurinn aðeins tvö stig fyrir lokaleikhlutann. Í upphafi þess fjórða tekur Grindavík öll völd á vellinum. Byggja þær hægt og rólega upp þægilega forystu og eru 9 stigum yfir þegar um þrjár mínútur eru til leiksloka, 73-82. Heimakonur gerðu hinsvegar vel á lokakaflanum, leyfa ekki fleiri körfur og enda leikinn á 15-0 áhlaupi. Niðurstaðan að lokum sex stiga sigur Keflavíkur, 88-82.
Stigahæstar í liði Grindavíkur voru Daisha Bradford með 32 stig og Hulda Björk Ólafsdóttir og Isabella Ósk Sigurðardóttir voru með 15 stig hvor.
Fyrir Keflavík var Jasmine Dickey stigahæst með 37 stig og Sara Rún Hinriksdóttir var með 16 stig.
Viðtöl upphaflega birt á vef Víkurfrétta