Önnur umferð milliriðla í Meistaradeild Evrópu(Euroleague) lauk í gær með þremur leikjum. Stórlið Panathinaikos tapaði á útivelli gegn löndum sínum í Maroussi 80-78. Panathinaikos átti í lokin tækifæri að vinna eða jafna en ætlunarverkið tókst ekki. Maroussi menn halda því áfram að koma á óvart í Meistaradeildinni en þetta er þeirra fyrsta tímabil meðal þeirra bestu.
Er þetta annar tapleikur Panathinaikos í milliriðlunum en þeir sitja á botni E-riðils með tvö töp á bakinu.
Stigahæstur hjá Maroussi var Billy Keys með 17 stig og Jared Homan setti 13. Hjá Panathinaikos skoraði Nikola Pekovic 19 stig og Mike Batiste 15.
Í Tel Aviv í Ísrael var sannkallaður stórslagur en lið Maccabi Electra Tel Aviv tók á móti stórliði Real Madrid. Eftir jafnan fyrri hálfleik unnu heimamenn stóran sigur 86-71.
Stigahæstur hjá Maccabi var Alan Anderson með 20 stig og Chuck Eidson setti 18. Hjá Real Madrid var Rimantas Kaukenas með 17 stig og Darjus Lavrinovic skoraði 13 stig.
Þriðji leikur kvöldsins var viðureign Cibona Zagreb og Caja Laboral frá Vitoria á Spáni. Vitoria menn höfðu að lokum fimm stiga sigur 79-84 í hörkuleik. Ísraelinn öflugi Lior Eliyahu var með 22 stig fyrir Vitoria og félagi hans Carl English skoraði 17. Hjá Cibona setti Marko Tomas 22 stig og Jamont Gordon bætti við 19 stigum.