Ísland mátti þola tap gegn Ítalíu í Laugardalshöllinni í kvöld í þriðja leik sínum í undankeppni EuroBasket 2025, 71-95. Ítalir fóru með sigrinum langleiðina að því að tryggja sig inn á lokamótið sem fram fer haustið 2025, en þeir hafa unnið alla þrjá leiki sína. Ísland hefur aftur á móti unnið einn leik og tapað tveimur. Ennþá með góða möguleika, sem hanga dálítið á því að Ungverjaland fari ekki að vinna leiki í riðlinum, en eftir leikinn er Ísland í þriðja sæti af fjórum liðum riðils sem efstu þrjú liðin komast áfram úr.
Fyrir leik
Farandi inn í þennan leik var Ítalía í nokkuð góðri stöðu hafandi unnið báða leiki fyrsta gluggans. Með sigri í báðum leikjum þessa annars glugga (báðir gegn Íslandi) hefði liðið farið langleiðina með að tryggja sig á lokamótið. Nokkurn vegin það sama hægt að segja um Ísland, sem þó vann einn og tapaði einum í fyrsta glugganum.
Í lið Íslands í kvöld vantaði leikmann Alba Berlin Martin Hermannsson, sem frá er vegna meiðsla. Reyndar vantaði einnig alla sjö EuroLeague leikmenn Ítalíu í leik kvöldsins, en þeir munu hafa verið fastir í verkefnum með liðum sínum til morgundagsins 23. nóvember og verða klárir í seinni leik liðanna á mánudaginn.
Síðast er Ísland mætti Ítalíu á heimavelli var það árið 2022 í undankeppni heimsmeistaramótsins og fór leikurinn fram í Ólafssal í Hafnarfirði. Þá var það miðherjinn Tryggvi Snær Hlinason sem átti stórleik fyrir Ísland og setti hann m.a. met í framlagi í keppninni með frammistöðu sinni er Ísland fór með sigur af hólmi.
Fyrir leik kvöldsins gaf vefmiðill FIBA út kraftröðun. Í henni var leikmannahópur Ítalíu talinn sá sjötti sterkasti í Evrópu í þessum glugga undankeppninnar, en íslenski hópurinn var talinn sá tuttugasti sterki.
Byrjunarlið Íslands
Haukur Helgi Pálsson, Elvar Már Friðriksson, Tryggvi Snær Hlinason, Ægir Þór Steinarsson og Jón Axel Guðmundsson.
Gangur leiks
Líkt og í góðri hnefaleikaviðureign notuðu liðin fyrstu sóknirnar til þess að þreifa hvort á öðru og óhætt er að segja að leikurinn hafi farið nokkuð hægt af stað. Nokkuð jafnt var þó á öllum tölum inn í fyrsta leikhlutann, en þegar fimm mínútur voru liðnar leiddi Ísland með 4 stigum, 12-8. Þá nær Ítalía að hlaða í 0-19 áhlaup og eru 15 stigum yfir eftir fyrsta fjórðung, 12-27.
Ansi langt leið þangað til íslenska liðið náði að töðva blæðinguna, en þeir skoruðu ekki körfu í opnum leik í rúmar átta mínútur. Þá var ítalska liðið komið töluvert á undan og leiddu þeir með 24 stigum þegar liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik, 25-49.
Stigahæstir heimamanna í fyrri hálfleiknum voru Elvar Már Friðriksson með 8 stig og Ægir Þór Steinarsson með 7 stig.
Íslenska liðið fer á svakalegu flugi inn í seinni hálfleikinn og ná með góðum leik og áræðni að skera forskot Ítalíu niður í 9 stig á fyrstu fimm mínútunum, 40-49. Mikið til var Ísland að ná að gera þetta með því að ná í góð stopp og keyra í bakið á ítalska liðinu. Undir lok þriðja fjórðungsins ná gestirnir þó aftur að setjast í bílstjórasætið og halda þægilegri forystu inn í lokaleikhlutann, 54-65.
Ekkert vantaði upp á ákefðina hjá íslenska liðinu í upphafi fjórða leikhlutans, en ólíkt í þeim þriðja voru þeir ekki að fá skotin sín til að detta. Gestirnir gengu eilítið á lagið og var munurinn 15 stig þegar um sex mínútur voru til leiksloka, 56-71. Þegar það skipti máli náði ítalska liðið að stoppa á lokamínútum leiksins, hleypa heimamönnum aldrei almennilega inn í leikinn. Íslenska liðið reynir þó hvað það getur að keyra upp hraðann og uppskera nokkrar fínar körfur. Það er þó ekki nóg og fer svo að lokum að Ítalía vinnur 71-95.
Kjarninn
Íslenska liðið átti í mestu erfiðleikum með að setja stig á töfluna á löngum köflum leiksins. Það, sem og öll tækifærin sem þeir gáfu Ítalíu með sóknarfráköstum og alltof mörgum töpuðum boltum, var ástæðan fyrir tapinu. Góðu kaflarnir voru þó virkilega flottir hjá liðinu, fyrstu fimm mínútur leiksins og næstum allur seinni hálfleikurinn. Leiðinlegt þeir dugðu ekki til að gera þetta spennandi í kvöld.
Atkvæðamestir
Atkvæðamestir fyrir Ísland í kvöld voru Tryggvi Snær Hlinason með 15 stig, 8 fráköst, 3 stoðsendingar og Jón Axel Guðmundsson með 15 stig, 7 fráköst og 4 stoðsendingar. Þá var Elvar Már Friðriksson með 15 stig, 4 stoðsendingar og Ægir Þór Steinarsson 9 stig.
Hvað svo?
Liðin mætast í öðrum leik þessa annars glugga undankeppninnar komandi mánudag 25. nóvember úti í Reggio Emilia á Ítalíu.
Myndasafn (Bára Dröfn)