spot_img
HomeFréttirÖrvar: Engin skömm að því að tapa fyrir KFÍ

Örvar: Engin skömm að því að tapa fyrir KFÍ

Fjölnismenn riðu ekki feitum hesti frá viðureign sinni gegn KFÍ í Lengjubikar karla fyrir vestan í gær en heimamenn sýndu á sér sparihliðarnar og sigruðu Fjölnismenn 101-83. Karfan.is náði í skottið á Örvari Kristjánssyni þjálfara Fjölnismanna sem var eðlilega ósáttur eftir tapleikinn en hrósaði mótherjum sínum fyrir flottan leik.
,,Við vorum vissulega langt frá okkar besta í þessum leik og margt sem við verðum að lagfæra fyrir komandi átök en tek það ekki frá Ísfirðingum að þeir spiluðu mjög vel. Varnarleikurinn okkar var mjög slakur og þá fannst mér sóknarleikurinn alls ekki nægilega markviss á köflum. Það jákvæða við leikinn frá okkar hendi var innkoma ungu leikmannanna sem stóðu sig vel, þeir eiga bara eftir að eflast þegar líður á veturinn. Annars er það engin skömm að tapa fyrir liði KFÍ, sigur þeirra var virkilega verðskuldaður en við eigum að geta gert mun betur,“ sagði Örvar og bætti svo við þegar talið barst að liði KFÍ.
 
,,KFÍ liðið er bara rosalega flott og til alls líklegt í vetur. Efast ekki um það að þeir fara rakleiðis upp í úrvalsdeildina á nýjan leik enda vel mannaðir og Pétur greinilega að gera frábæra hluti. Blandan í liðinu er góð, margir íslenskir leikmenn að stíga upp og andinn í liðinu virkar mjög góður. Það er engin tilviljun að þeir hafa sigrað tvö úrvalsdeildarlið í vetur, þarna eru menn að senda skýr skilaboð að þeir ætli sér ekkert annað en upp á nýjan leik.“
 
Fréttir
- Auglýsing -