spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÖruggur Valssigur á Tindastól

Öruggur Valssigur á Tindastól

Í kvöld fór fram síðasti leikurinn á þessu ári í Subway deild karla, þegar Valsmenn tóku á móti Tindastól. Fyrir þennan leik voru Valur í bölvuðu rugli og sátu í næst neðsta sæti með einungis 3 sigra, Tindastóll hins vegar sátu og munu sitja áfram í öðru sæti deildarinnar.  Sem fyrr er Kristófer Acox fjarri góðu gamni og einn er Kári Jóns ekki með, þannig að fyrirfram ættu Sauðkræklingar að sigla þessu þægilega heim. En eftir jafnan fyrsta leikhluta þá tóku Valur öll völd í öðrum leikhluta sem lagði grunninn að öruggum sigri Valsmanna 89 – 80

Tindastóll ætlaði að kafsigla Valsmönnum með þriggja stiga körfum, sem gekk bærilega, skoruðu 12 af fyrstu 15 stigunum og 7 stiga forystu, þá var Finni nóg boðið og henti í leikhlé.  Það skilaði í mun betri vörn og Valsmenn náðu forystunni.  En Basile sá til þess að Tindastóll fór með naumt forskot í næsta leikhluta 18-20.

Valsmenn mættu mun ákveðnari í öðrum leikhluta, börðust bæði í sókn sem vörn og stemmingin var algjörlega Valsmeginn, eftir að hafa náð átta stiga forskot frekar snemma í leikhlutanum var komið að Benna að henda í leikhlé. Það hafði ekki alveg sömu áhrif og leikhléið hjá Finni í fyrsta leikhluta. Valsmenn héldu áfram að auka forskotið og fór með 13 stiga mun, 49-36.

Valsmenn héldu áfram að þar sem frá var horfið og léku sér að heillum horfnum Tindastólsmönnum, þegar þeir náðu 20 stiga mun var Benna aftur nóg boðið. Það vantaði alla grimd í norðanmennina og ef þeir færu ekki að taka sig taki þá yrði þetta alger slátrun. Leikhléið dugði allavega til að stöðva blæðinguna, gestunum gekk samt ílla að minnka muninn eitthvað að ráði. Valur leiddi 73-56.

Tindastóll kom út í 4. leikhluta með allar byssur hlaðnar og settu niður fyrstu átta stigin.  Þannig að skyndilega var bara 10 stiga munur. Orkustigið algjörlega með gestunum þegar þarna var komið við sögu. En Valsmenn eru ólíkindatól og kunna það að snúa slæmum kafla í betri kafla, reyndar hlutur sem hefur soldið vantað í vetur. En Valur náði fljótt aftur undirtökunum og sigldu sanngjörnum sigri heim 89-80

Hjá Val átti Badmus góðan leik, með 24 stig, Sheriff, sem er allur að braggast, átti skínandi leik, með 15 stg og 7 fráköst. Þá átti Adam einnig fantagóðan leik með 15 stig og 11 fráköst.  Hjá Tindastól var Sigtryggur Arnar góður með 23 stig í reyndar ansi mörgum tilraunum, Basile var með 14 stig og 8 fráköst, Drungilas skellti svo í 17 stig og 9 fráköst.

Það er vert að hrósa Valsmönnum fyrir umgjörðina sem þeir settu upp fyrir leik, það skilaði sér í töluverðum fjölda áhorfenda, þótt stemmingin hefði mátt vera betri á pöllunum en það rættist nú úr því þegar leið á leikinn.

Núna eru liðin komin í jólafrí og hefja leik aftur 5. janúar þegar Valsmenn taka á móti toppliðinu, Stjörnunni.  Tindastóll byrjar tveimur dögum fyrr, eða 3. janúar og heimsækja þá sjóðheita KR-inga.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -