Grindvíkingar fengu „nágranna“ sína á hinum enda Suðurstrandarvegarins, Þorlákshafnar-Þórsara í heimsókn í 15. umferð Dominosdeildar karla í kvöld. Gengi liðanna hefur verið eins og svart og hvítt eftir áramót en eftir brösuga byrjun virtust Grindvíkingar vera rétta úr kútnum en það hefur gefið á bátinn á nýju ári, tæpir sigrar á móti báðum nýliðunum og svo slæm töp á móti Keflavík og svo steinlágu þeir í 8-liða úrslitum bikarsins á móti KR-ingum á mánudag. Gestirnir fengu frí þar sem þeir duttu út í 16-liða úrslitunum og mæta því betur úthvíldir skyldi einhver ætla. Þórsarar hafa ólíkt þeim gulu, verið á fljúgandi run-i eftir áramót og unnu t.d. ótrúlegan sigur á KR í síðustu umferð eftir að hafa lent 23 stigum undir, þeir unnu lokafjórðunginn 33-7! En það var þá og nú erum við í núinu.
Landslið dómara mætt á þennan leik, ég man ekki eftir að hafa séð Sigmund Má og Kidda Óskars í venjulegum deildarleik. Í læri hjá þeim í kvöld er Friðrik Árnason.
Þórsarar, leiddir af Kinu Rochford og hinum frábæra Nicholas Tomsick, leiddu allan fyrri hálfleikinn, allt frá tæpum 10 stigum niður í 1 en í hálfleik munaði 7 stigum á liðunum, 41-48. Tomsick já, með einn flottasta skotstíl sem undirritaður hefur séð, var kominn með 15 stig (5/7 í þristum), 3 fráköst og 3 stoðsendingar og Kinu nánast óstöðvandi inni í teig með 21 stig og 5 fráköst.
Hjá heimamönnum má segja að sami barningur hafi verið í gangi í sóknarleiknum og verið hefur að undanförnu, lítið flæði og illa ígrunduð skot. Einn aðalleikmanna gulra, Ólafur Ólafsson byrjaði út af þar sem hann hefur kennt sér meins í úlnlið að undanförnu. Hann kom þó fljótlega inn á og var kominn með 4 stig og 4 fráköst í hálfleik. Atkvæðamestur heimamanna var Lewis Clinch með 14 framlagspunkta (10 stig, 2 fráköst, 2 stoðsendingar og glæsilegt blokk sem var highlight hálfleiksins!) Bamba sem hefur verið úti á þekju og í raun ekki skilað sér til baka eftir jólafrí, aðeins vaknaður til lífsins og var kominn með 7 stig, 4 fráköst og 3 stoðsendingar.
Þórsarar héldu áfram að bæta í forskotið í seinni hálfleik og öll stemning var þeirra megin. Þeir unnu 3. leikhlutann 22-18 og eftir að þeir skoruðu 7 fyrstu stigin í lokafjórðungnum þá tók Jóhann leikhlé og las yfir hausamótunum á sínum mönnum. Einhvern tíma hefur hann talað um að allt sé í skrúfunni og átti það svo sannarlega við á þessum tímapunkti. Eitthvað náðist að leysa úr flækjunni í skrúfunni og menn Jóhanns komu aðeins til baka og munurinn datt niður fyrir hinn sálfræðilega erfiða 10 stiga múr en Þórsarar eru með hinn frábæra og fyrrnefna Tomsick í sínum röðum en hann er þeim eiginleikum gæddur að geta búið til skot úr engu og það gerði hann með góðum árangri. Munurinn fór aftur upp í 13 stig og Jóhann gerði eina tilraun enn til að blása eldmóði í sína menn með leikhléi. Allt kom fyrir ekki, ófá 3-stiga skotin voru of stutt eins og þau höfðu verið nánast allan tímann en heimamenn skutu einungis 9/30 úr 3-stiga skotum, þar af frábær skytta á síðasta tímabili, Sigtryggur Arnar Björnsson með 1/7. Þórsarar sigldu því öruggum sigri, 82-95 í höfn.
Bestur gestanna var Kinu sem hafði hægara um sig í stigaskorun í seinni hálfleik en endaði engu að síður með 27 stig, 17 fráköst og 5 stoðsendingar (41 í framlag!) Tomsick endaði með 26 stig og 6 stoðsendingar en vel að merkja, 10 tapaða bolta!
Meðalmennskan og varla það ríkjandi hjá heimamönnum og ljóst að ákveðin krísa er þar í gangi. Andleysi og þ.a.l. stemningsleysi. Ljóst að Jóhann þarf að töfra eitthvað fram úr erminni til að ná liðinu aftur á það flug sem það var á fyrir áramót.