Leikur Þórs og KFÍ varð aldrei sá leikur sem menn bjuggust við og vonuðu, munurinn í dag á liðunum var einfaldlega of mikill.
Fyrirfram bjuggust menn við því að leikur Þórs og KFÍ gæti orðið jafn og spennandi enda barst KFÍ góður liðsstyrkur fyrir skömmu þegar Birgir Björn Pétursson gekk til liðs við sitt gamla félag. En annað kom á daginn því strákarnir okkar höfðu góð tök á leiknum allt frá fyrstu mínútu þar til yfir lauk. Segja má að þeir Tryggvi Snær og Andrew Lehman hafi leikið við hvurn sinn fingur strax í upphafi leik og þegar fyrsta leikhlutanum lauk hafði Þór 14 stiga forskot 28-14.
Svipað var uppi á teningunum í örðum leikhluta. Þórsliðið hafði ávallt frumkvæðið og náði mest 20 stiga forskoti en smá kafli í síðari hluta leikhlutans varð til þess að gestirnir minnkuðu muninn niður í 14 stig. En
Þórsliðið tók þá aftur kipp og forskotið aftur upp í 19 stig. Staðan í hálfleik 53-34.
Í þriðja leikhluta hertu strákarnir okkar tökin og bættu jafnt og þétt í forskotið og þegar fjórði og síðasti leikhlutinn hófst munaði 29 stigum á liðunum 78-49.
Í fjórða og síðasta leikhlutanum gaf Benni yngri leikmönnum Þórs, sem og þeir sem hafa minni spilatíma að baki að spreyta sig helst á kostnað Drew, Danero. Ungu leikmennirnir stóðu sína vakt af mikilli prýði og unnu leikhlutann 19-16 og lönduðu þar með þægilegum 32 stiga sigri 97-65.
Segja má að þeir Tryggvi Snær, Andrew og Danero hafi án efa verið bestu menn vallarins í dag. Drew skoraði 22 stig og gaf 6 stoðsendingar, Tryggvi Snær var með 19 stig 14 fráköst og 9 varin skot. Danero var með 17 stig og 12 fráköst, Einar Ómar sem átti fína innkomu í dag var með 11 stig, Elías 8 stig, Ragnar Helgi 8 auk þess sem hann var með 10 stoðsendingar, Sindri Davíðs 7 stig, Sturla Elvarsson 3 og Svavar Sigurðarson 2.
Hjá gestunum var Nebojsa Knezevic lang atkvæðamestur með 23 stig og Birgir Björn Pétursson 14 aðrir leikmenn liðsins voru langt undan.
Munurinn á liðunum í dag var mikill eins og lokatölurnar gefa til kynna. Gestirnir sáu í raun aldrei til sólar og sé tekið mið af fyrri leik liðanna í haust þá er ljóst að þeir áttu ekki góðan dag. En ekkert lið leikur þó betur en andstæðingurinn leyfir og það var nákvæmlega það sem gerðist í dag, Þórsliðið hleypti þeim bara ekki nær en raunin var á.
Texti og myndir: Páll Jóhannsson