spot_img
HomeFréttirÖruggur Þórssigur

Öruggur Þórssigur

Þór tók á móti Augnablik í sjöundu umferð 1. deildar karla í körfubolta í gærkvöld í leik sem fram fór í íþróttahúsinu við Síðuskóla. Fyrir leikinn í kvöld höfðu gestirnir aðeins unnið einn leik í fyrstu sex umferðunum en Þór var með þrjá sigra. Leikurinn fór heldur rólega af stað en fljótlega náði Þór undirtökunum í leiknum og virtust hreinlega ætla stinga gestina af miðað við hvernig leikurinn spilaðist í fyrsta leikhlutanum. Að honum loknum leiddi Þór með 12 stigum 27-15.
 
En gestirnir sem voru heldur fámennir í gær, aðeins sex leikmenn bitu í skjaldarrendur og létu Þórsarar finna fyrir sér og með mikilli baráttu náðu þeir að saxa jafnt og þétt á forystu Þórs og þegar liðin gengu til búningsklefa í hálfleik var munurinn á liðunum aðeins fjögur stig 42-38. Þótt ekki sé gert lítið úr þætti gestanna í leikhlutanum voru leikmenn Þórs sjálfum sér verstir. Að öllum líkindum hafa þeir kannski haldið að eftirleikurinn yrði þeim auðveldur miðað við spilamennskuna í fyrsta leikhluta.
 
 
Greinilegt var að Bjarki Ármann þjálfari Þórs var ekki sáttur þegar liðin yfirgáfu völlinn í hálfleik. Þórsliðið kom gríðarlega sterkt til leiks í þriðja leikhlutanum og ljóst að ræða Bjarka Ármanns hafði kveikt rækilega í mönnum. Þórsliðið hafði algera yfirburði í leikhlutanum og t.a.m. þá voru liðnar einar fimm mínútur þegar gestunum tókst loksins að skora. Leikmenn Þórs léku á alls oddi og unnu leikhlutann með 19 stiga mun 25-6 og staðan þegar fjórði og síðasti leikhlutinn hófst 67-44.
 
 
Í raun voru úrslitin ráðin og gestirnir áttu í raun enga möguleika að gera neinar rósir úr því sem komið var. Í þessari stöðu hefðu mátt halda að leikmenn Þórs létu kné fylgja kviði en svo var ekki. Hvorugt lið gerði meira nauðsýnlegt var á lokakaflanum og spilamennska beggja liða bar þess merki. Bæði lið gerðu fullt af mistökum á lokakaflanum og fátt var um fína drætti. Fór svo að Þór vann síðasta leikhlutann með einu stigi 13-12 og lokatölur leiksins 80-56.
 
 
Eftir sigurinn í gærkvöld er Þór komið upp í 5. Sæti deildarinnar með 8 stig en Augnablik er í 8. Sæti deildarinnar með2 stig sem fyrr.
Stigahæstur leikmanna Þórs var Vic Ian Damasin með 15 og þeir Darko Milosevic og Halldór Örn Halldórsson með 12 stig hvor og þeir Ólafur Aron Ingason og Sigmundur Óli Eiríksson með 10 hvor. Hjá Augnablik var Lúðvík Bjarnason stigahæstur með 16 stig þá kom Jónas Pétur Ólason með 15 og Helgi Hrafn Þorláksson með 10.
 
  
Fréttir
- Auglýsing -