Tindastóll tók á móti Grindavík í Bónus deild karla í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Stólar töpuðu óvænt fyrir Haukum í síðasta leik en Grindjánar unnu Hött fyrir austan.
Leikurinn hófst á glæsilegri troðslu frá Sadio Doucure og heimamenn voru skrefi á undan í fyrsta leikhluta, ekki síst vegna öflugrar frammistöðu Adomas Drungilas sem setti 13 stig. Stólar leiddu 29-21 að honum loknum. Leikurinn jafnaðist í öðrum leikhluta og Breki fór að setja þrista úr horninu. Vörn gestanna varð einnig betri og Stólar komust ekki jafn auðveldlega að körfunni. Staðan 46-40 í hálfleik eftir góðan þrist frá Breka.
Heimamenn í Tindastól hófu seinni hálfleik á 2 þristum og fyrstu stig gestanna komu ekki fyrr en eftir rúmar 3 mínútur. Stólar áttu næstu 5 stig og næsta karfa gestanna kom þegar leikhlutinn var rúmlega hálfnaður. Munurinn hélst svo í 10 -15 stigum fram undir lok leiksins þegar Stólar innsigluðu góðan vinnusigur með því að setja síðustu 7 stigin, 97-79.
í jöfnu liði heimamanna endaði Drungilas stigahæstur með 19 stig og Basile skilaði góðum tölum með 17 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar. í mistæku liði gestanna var það Deandre Kane sem var allt í öllu með 23 stig og 11 fráköst en aðrir voru langt frá sínu besta.
Myndasafn (væntanlegt)
Umfjöllun / Hjalti Árna