Vestri og Snæfell mættust í 1. deild karla í kvöld en bæði lið telfdu fram talsvert breyttum liðum frá því í fyrra. Vestri endaði í 5. sæti á síðasta tímabili og datt út í fyrstu umferðinni á úrslitakeppninni á meðan Snæfell endaði í 6. sæti og rétt missti af úrslitakeppninni. Miðað við þennan leik þá virðist Vestfirðingum hafa gengið betur að ná vopnum sínum til baka.
Gangur leiksins
Vestri leiddi 14-8 eftir fyrsta leikhluta og 37-20 í hálfleik. Munaði miklu fyrir Snæfell að Deandre Mason átti hörmulegan fyrri hálfleik en gestirnir áttu í heild afar fá svör við svæðisvörn Vestra. Seinni hálfleikur var að mestu formsatriði og að lokum sigruðu heimamenn með 33 stiga mun, 80-47.
Framtíðin
Hinn 16 ára gamli Hugi Hallgrímsson byrjaði inn á fyrir Vestra og fékk áhorfendur til að stökkva upp úr sætum með tveimur troðslum í leiknum.
Maður leiksins
Menn leiksins voru klárlega fóstbræðurnir Nemanja og Nebojsa Knezevic. Nemanja var að spila sinn fyrsta leik eftir að hafa meiðst illa á móti Gnúpverjum í febrúar og var ekki að sjá að meiðslin væru lengur að hrjá hann en hann endaði með tröllatvennu, 18 stig og 18 fráköst, betur þekkt í hans bókum sem meðal leikur. Nebojsa, sem er að hefja sitt sjötta tímabil með liðinu, daðraði svo við þrennuna en hann var með 26 stig, 10 fráköst og 9 stoðsendingar.
Kjarninn
Þrátt fyrir að mikill haustbragur væri á leik Vestra þá voru þeir samt klassa fyrir ofan Snæfell í leiknum. Nemanja og Nebojsa voru eins og fyrr segir í sérflokki en breiddin hjá Vestra var einnig talsvert meiri og skoruðu allir nema einn leikmaður þeirra í leiknum.
Hjá Snæfell var Dominykas Zupkauskas sprækur og skoraði 17 stig. Gamla brýnið Darrell Flake komst einnig vel frá sínu og sýndi gamla takta. Deandre Mason gæti hins vegar verið á leiðinni að bæta fjárhaginn hjá Wow Air en hann hitti einungis úr 4 af 16 skotum sínum í leiknum og villaði sig út á 26 mínútum.
Mynd: Körfuknattleiksdeild Vestra