Valsmenn tóku á móti sjóðheitum Grindvíkingum, sem höfðu unnið þrjá leiki í röð, að Hlíðarenda í kvöld í lokaumferð deildarkeppninnar. Valsmenn einnig verið á góðu róli undanfarið en töpuðu gegn Keflavík í síðustu umferð.En það voru Valsmenn sem voru heilt yfir mun sterkari í þessum leik, þrátt fyrir frekar slakan fyrri hálfleik, og þeir sigldu heim í höfn öruggum sigri, 91-76
Í fyrsta leikhluti var boðið uppá fína hittni og liðin skiptust á um að skora. Svipað var uppi á teningnum í 2. leikhluta og staðan í hálfleik var 44-41 heimamönnum í vil. Skemmtilegur leikur.
Valsmenn komu mjög ákveðnir til leiks í 3. leikhluta; allt annað var að sjá varnarleik þeirra og um leið og vörnin small saman varð allt erfiðara hjá gestunum. Valur tók ákveðið frumkvæðið í leiknum og segja má að Grindvíkingar, sem þó gáfust aldrei upp, hafi hreinlega misst Valsmenn of langt frá sér, og þeir voru aldrei líklegir að þessu sinni að gera leikinn spennandi.
Flottur sigur Valsmanna staðreynd og fjórða sætið er þeirra og þeir mæta KR í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Það verður eitthvað.
Miguel Cardoso lék frábærlega fyrir Valsmenn; stjórnaði leik þeirra eins og hershöfðingi og hann er án efa einn allra besti leikstjórnandi deildarinnar. Þá var Hjálmar Stefánsson einnig frábær – þessi strákur getur nánast allt; frábær varnarmaður og klókur í sókninni og það er enginn smá lúxus fyrir Valsmenn að hafa svona góðan, stóran og fjölhæfan leikmann sem getur leyst margar stöður með sóma. Kristófer Acox var sterkur og Jordan Roland einnig, þótt hann skoraði minna en vanalega. Jordan er ekki bara jafnbesti skorari deildarinnar helddur getur hann spilað hörku vörn og varði hann meðal annars 3 skot í leiknum.
Ef vörn Valsmanna verður eitthvað í likingu við það sem þeir sýndu í seinni hálfleik, hvað þá betri, eru þeir að fara að gera stóra hluti í úrslitakeppninni.
Grindvíkingar voru bornir uppi af Ólafi Ólafssyni í fyrri hálfleik, en þá skoraði kappinn 17 stig og var illviðráðanlegur. Hann skoraði ekki meira í leiknum enda voru Valsmenn grimmir í síðari háfleik. Kazembe Abif hélt uppteknum hætti; hann var stigahæstur Grindvíkinga með 18 stig, var með 5 fráköst og 7 stoðsendingar – skilar alltaf sínu. Grindavíkurliðið er eins og Valsmenn, með hörkumannskap og það afskrifar ekki kjaftur þá í úrslitakeppninni, en 6. sæti deildarinnar er staðreynd sem og viðureign við Stjörnuna í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.
Umfjöllun: Svanur Snorrason