spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÖruggur sigur Tindastóls á Meistaravöllum

Öruggur sigur Tindastóls á Meistaravöllum

Tindastóll lagði KR á Meistaravöllum í kvöld í 12. umferð Bónus deildar karla, 95-116. Eftir leikinn er Tindastóll í 2. sæti deildarinnar með 18 stig á mrðan KR er í 4. til 7. sætinu með 12 stig.

Fyrir leik

Fyrir jólafrí hafði Tindastóll tapað sínum síðasta leik gegn Val, en KR höfðu unnið sína síðustu tvo fyrir hléið. Í fyrri umferð deildarinnar, fyrsta leik vetrarins, vann KR lið Tindastóls á Sauðárkróki.

Gangur leiks

Það voru heimamenn í KR sem hófu leik kvöldsins betur, en þegar líða fór á fyrsta fjórðung eru það gestirnir sem ná tökum á leiknum og leiða með 8 stigum fyrir annan leikhluta, 21-29. Heimamenn reyna hvað þeir geta til að komast aftur inn í leikinn undir lok fyrri hálfleiksins, en virðist sem í hvert skipti þeir komast af stað, svarar Tindastóll. Munurinn 17 stig þegar liðin halda til búningsherbergja, 43-60.

Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Þorvaldur Orri Árnason með 12 stig á meðan Sadio Doucoure var kominn með 18 stig fyrir Stólana.

KR hóta áhlaupi í upphafi seinni hálfleiks, en komast ekki langt. Minnst fer forskot Tindastóls niður í 5 stig áður en þeir setja fótinn aftur á brnsíngjöfina og er munurinn enn 17 stig fyrir lokaleikhlutann, 74-91. Tindastóll heldur fluginu áfram inn í fjórða leikhlutann og eru meira og minna búnir að gera útum leikinn þegar fimm mínútur eru eftir. Sigur þeirra að lokum gífurlega öruggur, 95-116.

Kjarninn

Það er óhætt að segja að sigur Tindastóls hafi verið nokkuð öruggur í kvöld, og ef eitthvað var hefði hann vel getað orðið stærri. Ef hægt er að taka eitthvað út hjá KR í leiknum er hægt að segja að þeir hafi ekki passað boltann nógu vel, en Stólarnir voru duglegir að refsa fyrir hvern einasta tapaða bolta heimamanna. Þá frákastaði Tindastóll mun betur í kvöld. Heilt yfir þó, Stólarnir einfaldlega betri á næstum öllum sviðum leiksins í kvöld.

Atkvæðamestir

Þórir Guðmundur Þorbjarnarson var atkvæðamestur í liði heimamanna í leiknum með 15 stig, 17 fráköst og 10 stoðsendingar. Honum næstur var Nimrod Hilliard með 21 stig og 10 stoðsendingar.

Fyrir Stólana var Dedrick Basile bestur með 27 stig, 7 fráköst og 9 stoðsendingar. Þá bætti Sadio Doucoure við 25 stigum og 7 fráköstum.

Hvað svo?

Stólarnir eiga leik næst komandi fimmtudag 9.janúar gegn ÍR í Síkinu, en KR leikur degi seinna föstudag 10. janúar gegn Stjörnunni í Umhyggjuhöllinni.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -