Þór tók á móti liði FSu í 1. deild karla í körfubolta í gærkvöld og var þetta jafnframt fyrsti heimaleikur liðsins á Íslandsmótinu. Þórsliðið mætti gríðarlega ákveðið til leiks og má eiginlega segja að línurar hafi verið lagðar strax á upphafsmínútunum. Þegar einungis 5 mínútur voru liðnar af fyrsta leikhlutanum hafði Þór náð 15 stiga forskoti og staðan þá 18-3 og gestirnir tóku leikhlé. Leikmenn FSu komu svo endurnærðir eftir leikhlé og tóku að saxa jafnt og þétt á forskot Þórs og þegar fyrsta fjórðungnum lauk höfðu þeir minnkað munninn í 3 stig og staðan þegar annar leikhutinn hófst var 22-19.
Þórsarar hófu svo annan leikhlutann með krafti og náðu aftur góðum tökum á leiknum. Varnarleikur liðsins sterkur og heimamenn juku forskotið á nýjan leik og bættu í sóknina um leið og þeir lokuðu vel á andstæðinginn í vörninni. Enda fór svo að leikmenn FSu skoruðu ekki nema 11 stig í fjórðungnum á móti 23 heimamanna og staðan í hálfleik var 45-30.
Segja má að heimamenn hafi verið heldur værukærir í síðari hálfleiknum og ekki alveg á tánum. Gestirnir spýttu af og til í lófana og náðu ágætis köflum og söxuðu á forskot Þórs, en þegar þeir tóku að nálgast óþarflega mikið vöknuðu strákarnir okkar og bættu aðeins í. Þórsarar unnu leikhlutann með þremur stigum 19-16 og höfðu því 18 stiga forskot þegar fjórði og síðasti leikhlutinn hófst.
Hafi Þórsarar verið full værukærir í þriðja leikhlutanum þá gerðust þeir enn kærulausari í fjórða leikhlutanum, svo ekki sé nú meira sagt. Þótt varnarleikurinn hjá Þór hafi á heildina litið verið góður í kvöld var síðasti fjórðungurinn sá lakasti. Einnig var hann lakasti leikhlutinn sóknarlega því liðið skoraði ekki mema 14 stig gegn 21 gestanna. Þegar upp var staðið hafði Þór 11 stiga sigur þar sem lokatölurnar urðu 78-67.
Sigur Þórs í kvöld var verðskuldaður og hefði allt eins geta verið stærri hefðu menn haldið fullum dampi allan leikinn. Varnarleikurinn í kvöld var í heilda litið góður en sóknarleikurinn svolítið brokkgengur.
Stig Þórs í kvöld: Bjarni Konráð Árnason 24, Darko Milosevic 17, Sindri Davíðsson 11, Elías Kristjánsson 9, Halldór Örn Halldórsson 8 Ólafur Aron Ingvason 4, Björn Benediktsson og Helgi Hrafn Halldórsson 2 hvor og Vic Ian Damasin 1.
Hjá FSu var Hjálmur Hjálmsson stigahæstur með 19 stig og Daði Berg Grétarsson með 14.
Sem sagt fyrsti sigur vetrarins staðreynd hjá Þór. Næsti leikur liðsins verður föstudaginn 26. október en þá sækir liðið Hauka heim og hefst sá leikur kl. 19:15.
Umfjöllun/ Palli Jóh