spot_img
HomeFréttirÖruggur sigur Snæfells á Sauðárkróki

Öruggur sigur Snæfells á Sauðárkróki

6:21

{mosimage}

Jæja, lítið hægt að segja eftir svona leik eins og í kvöld. Stólarnir voru á hælunum mest allan leikinn og Snæfell gekk á lagið og lagði heimamenn með rúmlega 30 stigum, 73-104. Byrjunarliðin voru fyrir heimamenn; Lamar, Svavar, Ísak, Vlad og Zeko, en fyrir gestina; Ingvaldur, Helgi, Hlynur, Sigurður og Justin.

Snæfell byrjaði vel í leiknum á meðan lítið gekk hjá Stólunum. Staðan eftir rúmar fimm mínútur var 4-15 og Kiddi búinn að taka leikhlé til að reyna að vekja sína menn. Þá skiptust liðin á nokkrum körfum og staðan 10-20. Á síðustu tveimur mínútum 1. leikhluta skoraði Snæfell 7-2 á Stólana og voru komnir með 15 stiga forskot eftir fyrsta fjórðung, 12-27. Ekkert vildi detta hjá heimamönnum og menn voru að klikka á auðveldum sniðskotum. Hinum megin gekk flest upp og Snæfell fékk meira að segja ekki dæmda sig eina villu í leikhlutanum, nokkuð sem gerist ekki oft í heilum leikhluta. Stólarnir komu miklu ákveðnari til leiks í öðrum leikhluta og Gulli reyndi að kveikja í sínum mönnum með kröftugum leik. Svabbi og Zekó áttu 2. leikhlutann í sókninni hjá heimamönnum og af 25 stigum Tindastóls í leikhlutanum skoraði Svabbi 10 og Zekó 12. Tindastóll náði muninum niður í 6 stig í stöðunni 30-36, en Snæfell náði að laga hana aftur fyrir hlé og leiddu 37-46 í hálfleik.

Ekki náði þessi góði kafli Tindastóls lengra í leiknum, því í þriðja leikhluta skildu leiðir endanlega og munurinn fór upp í 22 stig þegar staðan var 46-68. Leikhlutanum lauk svo í 50-72 og leiknum virtist lokið því heimamenn voru alls ekki líklegir til að snúa leiknum sér í hag. Andleysi réð ríkjum bæði í sókn og vörn á meðan vel skipulagt lið Snæfells lék heildsteypta vörn og flestir virtust geta skorað ef þess þurfti.

Snæfell skoraði fyrstu 9 stig síðasta leikhluta, staðan 50-81 og munurinn kominn í 31 stig og úrslitin endanlega ráðin. Aukaleikararnir hjá báðum liðum fengu að spreyta sig það sem eftir var fjórða fjórðungs. Úrslitin urðu svo 73-104 eins og áður segir. Stigahæstu menn liðanna voru Zeko fyrir Tindastól með 23 stig og Sigurður Þorvalds með 22 fyrir Snæfell. Zeko var sá eini í heimaliðinu sem átti eðlilegan leik í kvöld, aðrir voru nokkuð frá sínu besta. Helst að Svabbi og Gulli sýndu eitthvað á köflum. Hjá Snæfelli voru það Siggi, Justin og Hlynur sem voru bestu menn. Hlynur skoraði að vísu lítið en tók 10 fráköst og átti 6 stoðsendingar. Ingvaldur, Jón og Martin áttu einnig fínan leik í kvöld.

Dómarar voru Jón Guðmundsson og Davíð Hreiðarsson. Heimamenn voru langt í frá sáttir við þá í kvöld, fannst ekki gæta samræmis í dómgæslunni og áhorfendur létu þá oft heyra það.

Tölur úr leiknum: 4-11, 8-18, 12-27, 20-31, 28-36, 33-41, 37-46, 39-53, 42-58, 46-66, 50-72, 50-81, 59-92, 66-98, 73-104.
Stigaskor Tindastóls: Zeko 23, Svavar 15, Lamar 13, Gulli 10, Vlad 5, Helgi Rafn 4, Ingvi 2 og Ísak 1.
Stigaskor Snæfells: Siggi 22, Justin 18, Ingvaldur 17, Jón 14, Martin 12, Hlynur 7, Helgi 6 og Gunnlaugur og Guðni 4 stig hvor.

Eftir þessa leiki er Snæfell áfram í fjórða sæti og virðist nokkuð öruggt með heimavallarréttindin í fyrstu umferð úrslitakepnninnar. Tindastóll er hinsvegar dottið niður í 9. sæti deildarinnar eftir leiki kvöldsins, fall er nánast ómögulegt en erfitt verður að komast í úrslitakeppnina úr þessu. Til þess eru of erfiðir leikir eftir, allavega þarf spilamennska liðsins að batna ef það á að verða.

 

Tölfræði leiksins

 

www.skagafjordur.net/karfan

 

Mynd: www.skagafjordur.net/karfan

 

Fréttir
- Auglýsing -