Keflavík sigraði Stjörnuna með 80 stigum gegn 63 á heimavelli þeirra síðarnefndu, í Ásgarði í Garðabæ fyrr í kvöld. Keflavík því sem fyrr í 4-5. sæti deildarinnar ásamt Grindavík, en liðin eru jöfn að stigum. Grindavík á leik til góða (gegn Stjörnunni) á Keflavík og getur með sigri í honum komist upp fyrir Keflavík í töflunni og þar með skrefi nær þessu síðasta sæti úrslitakeppninnar. Að öðru leyti er dagskrá liðanna (Grindavíkur og Keflavíkur) eins. Það er, bæði lið eiga eftir að spila við topplið Hauka og Snæfells áður en að þau svo mætast innbyrðis í lokaleik tímabilsins. Stjarnan er sem áður í 6. sæti deildarinnar. Enginn möguleiki er fyrir þær að komast í úrslitakeppni og þar sem ekkert lið fellur þetta árið, er hættan á að missa sæti sitt í deildinni engin.
Fyrir leikinn því kannski allt til að spila fyrir hjá Keflavík (þetta síðasta sæti úrslitakeppninnar) á meðan að fyrir Stjörnuna eitthvað minna um augljósa hvatningu aðra en kannski þá staðreynd að það sé skemmtilegra að vinna en að tapa. Sem virtist svosem vera nóg fyrir þær til þess að veita ríkjandi Íslands, bikar og deildarmeisturum í Snæfelli góða samkeppni í sínum síðasta leik. Einhver skakkaföll á liði Stjörnunnar upp á síðkastið. Landsliðsmiðherji þeirra Ragna Margrét frá út tímabilið sem og önnur landsliðskona, Margrét Kara, að stíga uppúr veikindum og þar af leiðandi fyrir utan byrjunarliðið.
Leikurinn fór fjörlega af stað. Þar sem að Keflavíkurstúlkur voru virkilega lifandi varnarlega fyrstu mínúturnar. Skoruðu fyrstu 5 stig leiksins. Stjarnan svaraði hinsvegar og var búin að jafna leikinn 8-8 þegar um 3 mínútur voru liðnar af þessum fyrsta leikhluta. Liðin skiptust á snöggum áhlaupum þessar fyrstu mínútur. Þegar að 3 mínútur voru eftir af leikhlutanum komast Stjörnustúlkur svo yfir 17-16. Keflavík tók þá aftur við sér og kláraði leikhlutann með 5 stiga forystu, 20-25. Bryndís Hanna (11 stig) fyrir Stjörnuna og Emelía (10 stig) fóru mikinn sóknarlega fyrir sín lið í leikhlutanum.
Í öðrum leikhlutanum og fyrir lok hálfleiksins var þetta enn spennandi leikur. Þó að Keflavík læddist nokkrum stigum frammúr fyrir lok hans, en í hálfleik var munurinn kominn í 9 stig, 32-41. Að miklu leyti var það Keflavík sem var að nýta skot sín betur en Stjarnan (40% á móti 31%) sem útskýrði þennan mun.
Atkvæðamest fyrir heimastúlkur í hálfleik var Adrienne Godbold með 9 stig og 5 fráköst á meðan að fyrir Keflavík var það áðurnefnd Emelía Ósk Gunnarsdóttir sem var best með heil 19 stig og 4 fráköst.
Stjarnan byrjaði seinni hálfleikinn af krafti. Eftir að Adrienne hafði opnað hann með laglegum þrist, fylgdu á eftir tvö góð stopp og tvær góðar körfur eftir það fyrir Stjörnuna. Munurinn því kominn niður í aðeins 2 stig fljótlega þarna í 3. leikhlutanum. Lið Keflavíkur var hinsvegar fljótt að svara þessu snögga áhlaupi heimastúlkna og voru komnar með forystu sína í 14 stig þegar að leikhlutinn var hálfnaður. Nokkuð var um að villuvandræði væru að skapast hjá liðunum um þetta leyti leiksins. Miðherji Keflavíkur, Sandra Lind Þrastardóttir fékk sína 4 villu, sem og voru þær Eva María Emilsdóttir, Heiðrún Kristmundsdóttir og Adrienne Godbold allar komnar með 3 villur hjá Stjörnunni. Í lok leikhlutans má segja að Keflavík hafi nokkurnvegin gengið frá þessum leik. Munurinn var 20 stig fyrir lokaleikhlutann 45-65.
Ekki það að leikurinn hafi ekki verið að mörgu leyti búinn í byrjun þessa lokaleikhluta, þá bætti það allavegana ekki úr skák fyrir Stjörnuna þegar að Adrienne Godbold fékk sína 5 villu, en fram að þessu í leiknum hafði hún verið ágæt, með 12 stig og 5 fráköst. Munurinn var þá 23 stig, 51-74 og eitthvað í kringum 6 mínútur til leiksloka. Stjarnan náði reyndar aðeins að saxa á forskotið áður en að lokaflautan gall, en þurftu samt á endanum að sætta sig við 17 stiga ósigur, 63-80.
Maður leiksins var títtnefndur leikmaður Keflavíkur, Emelía Ósk Gunnarsdóttir, en hún skoraði 26 stig og tók 7 fráköst á þeim rétt rúmu 27 mínútum sem hún spilaði.
Umfjöllun, myndir, viðtöl / Davíð Eldur
Viðtöl: