spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÖruggur sigur Keflavíkur á Sunnubrautinni

Öruggur sigur Keflavíkur á Sunnubrautinni

Keflavík lagði Álftanes í kvöld í fyrsta leik 8 liða úrslita Subway deildar karla, 99-92. Keflvíkingar því komnir með forystuna í einvíginu 1-0, en vinna þarf þrjá leiki til að tryggja sig áfram í undanúrslitin.

Fyrir leik

Keflavík hafði endað í 3. sæti deildarkeppninnar á meðan að Álftnesingar voru í 6. sætinu. Leikir liðanna á tímabilinu voru nokkuð ólíkir. Keflavík vann þá báða, nokkuð örugglega í fyrri umferðinni á Sunnubrautinni, en seinni leikurinn á Álftanesi fór í tvær framlengingar.

Heimkoma Harðar

Ein af stærri sögum þessa einvígi var heimkoma Harðar Axels Vilhjálmssonar aftur til Keflavíkur með nýju liði sínu Álftanesi, en hann skipti yfir til þeirra síðasta sumar eftir að hafa verið nokkuð lengi hjá Keflavík. Vissulega hafði Álftanes leikið í Keflavík fyrr á tímabilinu, en þá var Hörður frá vegna meiðsla.

Gangur leiks

Leikurinn fór nokkuð fjörlega af stað þar sem að liðin skiptust á snöggum áhlaupum, en þegar líða fór á fyrsta fjórðung náði Keflavík yfirhöndinni og voru 5 stigum yfir fyrir annan leikhlutann, 24-19. Undir lok fyrri hálfleiksins bætir Keflavík svo enn frekar í og eru þeir komnir með 14 stiga forystu þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 51-37.

Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Remy Martin með 12 stig á meðan að Haukur Helgi Pálsson var kominn með 9 stig fyrir Álftanes.

Keflavík hefur seinni hálfleikinn og eru þeir komnir með 24 stiga forystu þegar sá þriðji er hálfnaður. Álftnesingar ná þó aðeins að spyrna við og er forysta heimamanna 17 stig fyrir lokaleikhlutann, 77-60. Leikurinn varð svo aldrei spennandi í þeim fjórða þó svo að Álftnesingar hafi náð að koma muninum niður í sjö stig. Keflavík klárar leikinn nokkuð örugglega, 99-92

Atkvæðamestir

Fyrir Keflavík voru Remy Martin með 19 stig, 5 stoðsendingar og Sigurður Pétursson með 17 stig og 3 fráköst.

Hjá Álftanesi var það Ville Tahvanainen sem dró vagninn með 21 stigi, 5 fráköstum og 5 stoðsendingum. Honum næstur var Haukur Helgi Pálsson með 18 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar.

Kjarninn

Því miður fyrir nýliða Álftaness þá virðast allir spádómar sérfræðinga fyrir þetta einvígi hafa gengið eftir í leik kvöldsins. Réðu nákvæmlega ekkert við Remy Martin í leiknum, ekkert frekar en flest lið í deildinni og þá var sá hraði sem Keflavík vill spila á of mikill fyrir þá. Þeir sýndu þó smá lífsmerki undir lokin með því að hlaupa betur með heimamönnum, en með því komu þeir í veg fyrir virkilega ljótt tap í þessum fyrsta leik úrslitakeppninnar og fyrsta leik þeirra í úrslitakeppni efstu deildar í sögunni.

Hvað svo?

Næsti leikur liðanna er komandi mánudag 15. apríl kl. 19:00 í Forsetahöllinni á Álftanesi.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -