Keflavík hafði betur gegn Stjörnunni í kvöld í 10. umferð Bónus deildar kvenna, 105-86. Íslandsmeistarar Keflavíkur eftir leikinn í 2.-3. sætinu með 14 stig líkt og Njarðvík, en Stjarnan í 6. sæti deildarinnar með 8 stig.
Leikur kvöldsins var nokkuð jafn á upphafsmínútunum og munaði aðeins fimm stigum á liðunum að fyrsta fjórðung loknum, 29-24. Undir lok fyrri hálfleiksins ná heimakonur svo að byggja upp ágætis forystu og er munurinn 18 stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 58-40.
Svar Stjörnunnar í upphafi seinni hálfleiks er nokkuð gott. Ná þær um miðbygg þriðja fjórðungs næstum að vinna sig aftur inn í leikinn, en þá setur Keflavík fótinn aftur á bensínið og munar enn 11 stigum á liðunum fyrir lokaleikhlutann. Í honum er ekki hægt að segja að gestirnir hafi náð góðu áhlaupi á forskot heimakvenna, þó þær hafi aldrei verið langt undan. Íslandsmeistarar Keflavíkur sigla að lokum nokkuð öruggum sigur í höfn, 105-86.
Jasmine Dickey var gjörsamlega frábær fyrir Keflavík í kvöld með 35 stig og 17 fráköst. Þá var Thelma Dís Ágústsdóttir einnig atkvæðamikil með 22 stig, 6 fráköst, 5 stoðsendingar og Sara Rún Hinriksdóttir einnig með 25 stig, 5 fráköst og 7 stoðsendingar.
Fyrir Stjörnuna var Denia Davis- Stewart atkvæðamest með tröllatvennu, 21 stig og 22 fráköst. Henni næst var Diljá Ögn Lárusdóttir með 29 stig og 6 fráköst.