spot_img
HomeFréttirÖruggur sigur ÍR í Hafnarfirði

Öruggur sigur ÍR í Hafnarfirði

 

ÍR sigraði Hauka fyrr í kvöld með 19 stigum, 45-64, á heimavelli þeirra síðarnefndu í Schenker Höllinni í Hafnarfirði. Bæði lið því eftir leikinn í sömu sætum og þau voru fyrir hann. ÍR í öðru sæti 1. deildarinnar aðeins leik fyrir aftan Njarðvík í fyrsta sætinu og Haukar sem fyrr í 7.-8. sæti deildarinnar ásamt KR.

 

 

Þrátt fyrir þennan mun á liðunum í töflunni voru það heimamenn sem byrjuðu leikinn betur. Voru skrefinu á undan gestunum nokkrar fyrstu mínúturnar. Það var ekki fyrr en að leikhlutinn var tæplega hálfnaður að ÍR tókst að komast í forystu. Þá forystu áttu þeir svo ekki eftir að láta af hendi það sem eftir lifði leiks. Vinna fyrsta leikhlutann 13-20.

 

Heimamenn byrjuðu annan leikhlutann svo afleitlega. Fengu á sig 1-14 áhlaup strax í byrjun. Um þetta leyti virtist hreinlega ekkert geta brotið á bak þá vörn sem að ÍR spilaði. Voru duglegir að hjálpa hvor öðrum og náðu gjörsamlega að loka á allt sem að Haukar reyndu að gera inni í teig hjá þeim. Heimamenn náðu þó aðeins að rétta út kútnum á síðustu mínútunum fyrir hálfleik, en voru samt 15 stigum undir í hálfleik, 23-38.

 

Þriðja leikhlutann hófu heimamenn aðeins betur. Staðan var 31-42 þegar að hann var um það bil hálfnaður og fyrir lokaleikhlutann var munur ÍR í 12 stigum, 36-48.

 

Í fjórða leikhlutanum reyndu Haukar svo hvað þeir gátu til þess að vinna muninn niður, en það gekk frekar hægt hjá þeim. Þegar að leikhlutinn var hálfnaður var munurinn 14 stig, 44-58. Á lokamínútunum gekk þeim svo djöfullega að fá boltann ofaní körfuna, skoruðu aðeins 1 stig síðustu 5 mínúturnar. Leikurinn endaði því með 19 stiga sigri ÍR, 45-64.

 

Stigahæstur fyrir heimamenn var Óskar Már Óskarsson með 12 stig á meðan að fyrir gestina var það Sigurkarl Róbert Jóhannesson sem dróg vagninn með 24.

 

Myndir

 

 

 

Umfjöllun, myndir / Davíð Eldur

Fréttir
- Auglýsing -