Íslenska U18 landslið karla sigraði Makedóníu með 16 stigum í B-deild Evrópumótsins í dag, 64-80.
Strákarnir fóru hægt af stað, hittu fremur illa en höfðu alltaf stjórn á leiknum. Í seinni hálfleik fór leikur íslenska liðsins að smella heldur betur og náðu að bæta í forystuna jafnt og þétt eftir að hafa verið aðeins 6 stigum yfir í hálfleik, 31-37.
Kristinn Pálsson hrökk í gang í seinni hálfleik en hann var með 7 stig í hálfleik en endaði með 24 stig eftir að hafa skorað 13 stig í röð fyrir Ísland á einum kafla í þriðja og fjórða hluta.
Íslenska liðinu hefur gengið vel að passa boltann því það hefur tapað boltanum að meðaltali 14 sinnum í leik sem er undir meðaltali liðsins á NM í Solna í maí. Þó er rými til endurbóta því af þessum 28 boltum sem liðið hefur tapað á mótinu eru aðeins 13 þeirra eftir stuld frá hinu liðinu.
Allar körfur íslenska liðsins komu annað hvort frá þriggja stiga línunni eða innan úr teignum en 32 af 80 stigum liðsins komu þaðan. Ísland hefur nýtt teiginn vel á mótinu það sem af er, en það hefur skorað að meðaltali 38 stig þar.
Kristinn Pálsson leiddi íslenska liðið með 24 stig, 11 fráköst og 5 stoðsendingar en á eftir honum kom Þórir Þorbjarnarson me18 stig og 5 fráköst.
Næsti leikur U18 karla er gegn Danmörku annað kvöld kl. 18:15.
Mynd: Kristinn Pálsson skoraði 13 stig í röð fyrir Ísland í seinni hálfleik gegn Makedóníu. (FIBA Europe)