Grindavík og KR mættust í gærkvöld í Röstinni Grindavík. KR voru þegar orðnar deildarmeistarar fyrir leikinn en Grindvíkingar áttu möguleika á að ná þriðja sætinu í A-riðlinum.
Leikurinn byrjaði af miklum krafti hjá báðum liðum og skiptust þau oft á forystu. Þegar leikhlutinn var hálfnaður var staðan jöfn 8-8 en eftir það náðu heimastúlkur að halda naumri forystu þar til leikhlutanum lauk með tveggja stiga forystu Grindavíkur 16-14.
Strax í byrjun annars leikhluta jafnaði Signý Hermannsdóttir leikinn og átti síðan stoðsendingu á Margréti Köru Sturludóttur sem kom KR yfir. Eftir það virtust KR-stúlkur algerlega taka völdin í leiknum og juku stöðugt forystuna.
Í hálfleik var staðan 21-33 KR í vil. Margrét Kara hafði þá skorað stóran hluta stiga KR, 14 stig.
Í þriðja leikhluta héldu Kr-ingar áfram að auka við forystu sína, heimastúlkur gerðu mikið af mistökum. Leikurinn var orðin algjör einstefna og eftir að leikhlutinn endaði með 22 stiga forystu KR, 33-55, var það ljóst að algjöran viðsnúning þyrfti hjá Grindavík til að koma í veg fyrir KR-sigur.
Það sama var uppi á teningunum í fjórða leikhluta og í þeim þriðja og fljótt varð ljóst að sigur KR-stúlkna væri staðreynd. KR hélt sinni forystu og þó leikhlutinn hafi farið 12-11 fyrir Grindavíkurstúlkum náðu þær ekki að bæta sinn leik nóg til þess að eiga möguleika á að ná KR.
Leiknum lauk því með öruggum sigri KR, 45-66, þar sem Signý Hermannsdóttir, 17 stig og 8 fráköst, og Margrét Kara Sturludóttir, 16 stig og 12 fráköst, voru atkvæðamestar.
Atkvæðamestar í liði Grindavíkur voru Michele DeVault, 11 stig og 6 fráköst, og Jovana Lilja Stefánsdóttir sem einnig skoraði 11 stig.
Umfjöllun: Sara