spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÖruggur sigur heimamanna í Síkinu

Öruggur sigur heimamanna í Síkinu

Það var ekki áferðafallegur körfubolti sem lið Tindastóls og Hauka buðu upp á í Dominos deild karla í körfuknattleik í kvöld.  Mikið var um mistök, sérstaklega í sóknarleiknum og það virtist sem liðin, sérstaklega heimamenn í Tindastól, höfðu ekki mætt með fullum hug í leikinn.
Haukar byrjuðu betur en heimamenn svöruðu fljótlega og leiddu 17-14 eftir fyrsta leikhluta.  Þeir virkuðu þó ekki sannfærandi og virtust pirraðir á að vera ekki komnir með meiri forystu.  Það hefst þó aldrei nema með vinnu og Tindastólsmenn virtust einfaldlega vanmeta gestina og beittu sér ekki að fullu í leikinn.  Haukar gengu á lagið og höfðu í fullu tré við heimamenn án þess að spila sérstaklega vel og það var einungis léleg sóknarnýting beggja liða sem kom í veg fyrir að gestirnir næðu meiri forystu.  Haukar leiddu í hálfleik 30-33 eftir einn daprasta fyrri hálfleik sem undirritaður hefur orðið vitni að í Síkinu.
Heimamenn tóku sig saman í andlitinu í þriðja leikhluta, skelltu í lás í vörninni og fóru að hitta betur.  Þegar um þrjár og hálf mínúta voru eftir af leikhlutanum kom Pétur Rúnar muninum í 10 stig með tveimur vítum og eftir það litu heimamenn varla um öxl og sigldu að lokum öruggum 18 stiga sigri heim.
Marques Oliver var öflugur í liði gestanna og skilaði tröllatvennu, 16 stigum og 16 fráköstum.  Kristinn Marinós læddi 11 stigum í viðbót en lítið fór fyrir öðrum.  Hjá heimamönnum var Urald King með 23 stig og 14 fráköst á 28 mínútum og Brynjar setti 16 stig, þar af 4 þrista í 7 skotum.  Getumunurinn á liðunum var töluverður en heimamenn verða að spila betur en þeir gerðu í kvöld til að ná árangri í vetur því markmiðin eru háleit.

Tölfræði leiks

Umfjöllun, myndir, viðtöl / Hjalti Árna
Brynjar:

Pétur Rúnar:

Fréttir
- Auglýsing -