Grindavík hafði betur gegn Aþenu í Smáranum í kvöld í 17. umferð Bónus deildar kvenna, 105-90.
Eftir leikinn er Grindavík í 8. til 9. sæti deildarinnar með 10 stig líkt og Hamar/Þór á meðan Aþena er í 10. sætinu með 6 stig, en þær hafa nú tapað 9 deildarleikjum í röð.
Nokkuð jafnræði var á með liðunum á upphafsmínútunum og voru það gestirnir úr Breiðholti sem voru skrefinu á undan í fyrsta fjórðungnum, en þegar hann var á enda hafði Grindavík nánast tekist að jafna leikinn, 23-24.
Segja má að leikurinn hafi verið nokkur einstefna frá öðrum leikhluta. Grindavík byggði sér hægt og bítandi upp gott forskot, sem var 8 stig í hálfleik og 15 eftir þrjá leikhluta. Í fjórða leikhlutanum heldur Grindavík svo forystunni nánast allan fjórðunginn og sigrar að lokum nokkuð örugglega, 105-90.
Atkvæðamest heimakvenna í leiknum var Daisha Bradford með 29 stig, 14 fráköst og 6 stoðsendingar. Þá skilaði Isabella Ósk Sigurðardóttir 21 stigi, 16 fráköstum og 4 stoðsendingum.
Fyrir Aþenu var Hanna Þráinsdóttir atkvæðamest með 16 stig, 4 fráköst og henni næst Violet Morrow með 14 stig og 4 fráköst.
Grindavík á leik næst þann 18. febrúar gegn Stjörnunni í Umhyggjuhöllinni, en Aþena leikur degi seinna þann 19. febrúar gegn Keflavík heima í Austurbergi.
Viðtöl upphaflega birt á vef Víkurfrétta