spot_img
HomeFréttirÖruggur sigur Hauka í Schenkerhöllinni

Öruggur sigur Hauka í Schenkerhöllinni

 
Haukar höfðu betur gegn botnliði Hamars í Schenkerhöllinni í kvöld þegar að liðin mættust í IE-deild kvenna. Lið Hamars sýndi Haukum að þær ætluðu sér að veita harða mótspyrnu í kvöld en síðast þegar að liðin mættust þá unnu Haukar tæpt. Það plan gekk ágætlega í um helming leiksins en svo fór að halla undan fæti hjá þeim og Haukar sigu fram úr.
 
Haukar byrjuðu leikinn betur og komust í 9-4 eftir góða vörn og vel nýttar sóknir, á meðan liðsmenn Hamars voru ekki að hitta vel framan af. Eins og hendi væri veifað slokknaði á Haukum og ekkert stig kom frá þeim síðustu fimm mínúturnar af fyrsta leikhlutanum. Hamar náði með góðri liðsvörn að komast yfir 9-11 og á sama tíma nýttu þær sóknir sínar vel. Leikhlutanum lauk með tveggja stiga forystu gestanna 9-11.
 
Annar leikhluti var mjög sveiflukenndur en Haukar gerðu áhlaup með Jence Rhoads fremsti í flokki sem var að finna liðsfélaga sína vel og Haukar komust níu stigum yfir 24-15. Lárus Jónsson, þjálfari Hamars, tók leikhlé og hlutirnir snérust gjörsamlega við. Útlendingarnir hjá Hamri hrukku í gang og voru þær potturinn og pannan leik Hamars sem minnkuðu muninn jafnt og þétt niður. Aðeins eitt stig skildi liðin að í hálfleik, 30-29 eftir að Kristrún Antonsdóttir skellti niður einum spjaldið oní þriggja stiga körfu.
 
Jafnræði var með liðinum í upphafi seinni hálfleiks og skiptust liðin á að skora fyrstu fimm mínútur leikhlutans. Vörn Hamars var að virka vel en þær skiptu yfir í svæðisvörn í lok fyrri hálfleiks sem virkaði vel á sókn Hauka. Haukar hrukku í gang og tóku 12-0 sem breytti stöðunni úr 38-38 í 52-38 en Íris Sverrisdóttir fór mikinn á þessum kafla og átti 10 af þessum 12 stigum. Vörn Haukanna var fyrna sterk þar sem allt small saman og í tvígang náðu leikmenn Hamars ekki að koma skoti að körfu heimakvenna áður en skotklukkan rann út. Haukar leiddu með 13 stigum, 54-41, eftir fjórðunginn.
 
Margrét Rósa Hálfdanardóttir fór mikinn í upphafi fjórða leikhluta fyrir Hauka og skoraði sjö fyrstu stig leikhlutans. Haukastelpur voru þá komnar með 20 stiga forskot sem hélst nánast óbreyttur út leiktímann og Haukar unnu öruggan 17 stig sigur 81-64.
 
Stigahæstar í liði Hauka voru þær Jence Rhoads og Íris Sverrisdóttir en Rhoads skorði 18 stig, tók 11 fráköst og stal 5 boltum á meðan Íris skoraði 17 stig og tók 6 fráköst.
 
Hjá Hamri var Samantha Murphy með 25 stig og 5 fráköst og Katherine Graham 17 stig, 6 fráköst og 7 stoðsendingar en þessar tvær voru í sérflokki í liði Hamars.

Ljósmyndasafn úr leiknum

 
Fréttir
- Auglýsing -