Höttur lagði Fjölni í kvöld á Egilsstöðum í fyrstu deild karla, 93-78. Eftir leikinn er Höttur í 3. sæti deildarinnar með 18 stig á meðan að Fjölnir er í 6. sætinu með 12 stig.
Heimamenn í Hetti byrjuðu leik kvöldsins betur. Leiddu eftir fyrsta leikhluta með 9 stigum, 29-20. Í öðrum leikhlutanum láta heimamenn svo kné fylgja kviði og koma forystu sinni í 20 stig fyrir lok hálfleiksins, en staðan þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik var 56-36.
Atkvæðamestur í fyrri hálfleiknum fyrir Fjölni var Dwayne Ross Foreman Jr. með 16 stig og 6 fráköst. Fyrir heimamenn í Hetti var Adam Eiður Ásgeirsson með 17 stig í fyrri hálfleiknum og Arturo Fernandez Rodriguez bætti við 13 stigum.
Í upphafi seinni hálfleiksins ná gestirnir úr Grafarvogi að koma sér aftur inn í leikinn. Skera forskot heimamanna niður í 10 stig í þriðja leikhlutanum, en staðan fyrir þann fjórða er 67-57. Í lokaleikhlutanum halda heimamenn svo haus og er áhlaup Fjölnis aldrei þannig að leikurinn verði neitt sérstaklega spennandi. Höttur siglir þessu heim í lokin, nokkuð örugglega, 93-78.
Framlagshæstir fyrir Fjölni í leiknum voru Dwayne með 31 stig, 11 fráköst og Daníel Ágúst Halldórsson með 27 stig, 6 fráköst og 7 stoðsendingar.
Fyrir heimamenn var það Timothy Guers sem dró vagninn með 21 stigi, 9 fráköstum og 7 stoðsendingum og Adam Eiður bætti við 23 stigum og 5 fráköstum.
Umfjöllun / Pétur Guðmundsson