spot_img
HomeFréttirÖruggur sigur Hamars á Skaganum

Öruggur sigur Hamars á Skaganum

 

ÍA tók á móti Hamarsmönnum frá Hveragerði á Akranesi í kvöld.  ÍA var að spila sinn annan leik á tímabilinu, mættu FSu síðast liðinn fimmtudag, á meðan þetta var fyrsti leikur Hamars. Liðin hafa háð þær margar rimmurnar undanfarin ár þannig að fyrirfram mátti búast við hörku leik.

Bæði lið mæta nokkuð breytt til leiks á þessu tímabili auk þess sem ÍA var að kljást við veikindi.

ÍA byrjaði leikinn af krafti, leiddi eftir fyrsta leikhluta en Hamarsmenn náðu yfirhöndinni undir lok fyrrihálfleiks og kláruðu svo leikinn auðveldlega í seinnihálfleik og lokatölur 83 – 110 fyrir Hamar.

Eftir að Hamarsmenn náðu leiknum á sitt band juku þeir forustuna jafnt og þétt, smá hiti var í leiknum eins og stundum þegar þessi lið mætast og sýnist hvoru liðinu sitt í því hvað veldur. Það var eins og kveikt hafi verið undir hellunni við uppkast og má segja að suðan hafi komið full vel upp þegar Jón Þór þjálfari ÍA fékk sína aðra tæknivillu með stuttu millibili.  Suðan féll aðeins niður við þetta en það komu nokkrar bubblur á eftir en lokið hélst á pottinum.

Bandarísku leikmennirnir voru stigahæstir í sínum liðum, Shouse með 28 hjá ÍA og Woods með 28 fyrir Hamar.  Fannar var svo með 24 stig og Björn Steinar með 20 í sínum fyrsta heimaleik með ÍA.  Örn var svo með 26 stig fyrir Hamar.  Aðrir skoruðu minna.

Maður leiksins var liðsheildin hjá Hamar, allir lögðu sitt á vogaskálarnar til að landa þessum sigri, sem var óþarflega mikil ganga í garðinum hjá Hamarsmönnum, en Skagamenn voru með nokkuð óreynt lið í kvöld, en þeir strákar fara reynslunni ríkari frá þessum leik.

Eins og áður segir var þetta annar leikur ÍA í deidlinni.  Þess má geta að báðir þessir leikir hafa komið upp á sama leikdag og íslenska karlalandsliðið í fótbolta spilar í undankeppni HM.  ÍA hefur tapað báðum sínum leikjum á meðan landsliðið hefur unnið báða sína.

Sem betur fer fyrir ÍA eru ekki fleiri landsleikir á leikdögum ÍA á næstunni.

Texti HGH
Myndir – Jónas H. Ottósson

 

Myndasafn

Tölfræði
 

Fréttir
- Auglýsing -