Ungt lið Aþenu heimsótti Ármann í Kennó er liðin mættust í 1. deild kvenna í kvöld. Óhætt er að segja að leikurinn hafi verið leikur kattarins að músinni.
Ármenningar settu tóninn snemma og bókstaflega kláruðu leikinn strax á fyrstu sjö mínútum leiksins. Þá komst liðið í 20-2 forystu og segja má að leik hafi verið lokið. Ármann lék á allsoddi í fyrsta leikhluta á meðan Aþena réð illa við styrk heimakvenna. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 31-13 fyrir Ármanni. Aþena beit aðeins frá sér í öðrum leikhluta og var staðan að honum loknum 45-30.
Heimakonur juku muninn í upphafi þriðja leikhluta uppí tæplega 30 stig og eftir það fóru bæði lið að spila á öllum leikmönnum liðsins. Niðurstaða leiksins var mjög öruggur 87-50 sigur Ármanns.
Hjá Ármanni var Jónína Þórdís Karlsdóttir gríðarlega öflug að vanda, var hún með 24 stig, 7 fráköst og 11 stoðsendingar. Nýr leikmaður Ármanns Schekinah Bimpa var einnig sterk með 22 stig, 10 fráköst og 6 stolna bolta. Ármenningar mættu mjög ákveðnar til leiks en liðið tók 38 sóknarfráköst í leiknum og stálu 16 boltnum sem skilaði sér í því að liðið tók 101 skot í leiknum.
Þrátt fyrir að spila einungis 15 mínútur var Violet Morrow atkvæðamest hjá Aþenu með 15 stig og 7 fráköst. Hún meiddist í fyrri hálfleik og spilaði ekki meira eftir það. Hin 14 ára Tanja Ósk Brynjarsdóttir heillaði áhorfendur einnig en hún endaði með 9 stig, 4 fráköst og 3 stoðsendingar í leiknum. Lið Aþenu er hæfilegaríkt en eins og staðan er núna er liðið einfaldlega ekki á sama stað og önnur lið þegar kemur að styrk og hæð. Það verður spennandi að fylgjast með liðinu í vetur og þeim framförum sem liðið mun taka í vetur.