spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaÖruggur seiglusigur ÍA

Öruggur seiglusigur ÍA

Akurnesingar í ÍA tóku í kvöld á móti Akureyringum í Þór.  Þórsarar voru mættir í leit að sínum fyrsta sigri á tímabilinu á meðan ÍA ætlaði að styrkja stöðu sína í hinum svokallaða miðjupakka deildarinnar.

Jafnræði var með liðunum í fyrsta leikhluta.  Skagamenn gerðu nokkrar heiðarlegar tilraunir til að slíta sig frá Akureyringum en leikmenn Þórs svöruðu ávallt með áhlaupum og munurinn á liðunum eftir fyrsta leikhluta var aðeins eitt stig.


Annar leikhluti byrjaði á sömu nótum og um miðjan leikhlutann komust Þórarar 31-32 yfir og leiddu leikinn í fyrsta sinn síðan á annarri mínútu leiksins í stöðunni 3-4.  Skagamenn tóku þá við sér og kláruðu hálfleikinn 15-7 og leiddu því með 5 stigum í hálfleik, 46-39.

Seinni hálfleikur var svo algjör einstefna og var leiðin bara í áttina að sigri heimamanna sem byggðu upp góða forystu í þriðja leikhluta og lönduðu að lokum öruggum 102-78 sigri.

ÍA heldur því áfram í miðjupakka baráttunni um 3.-7. sæti og leit Þórsara að fyrsta sigri tímabilsins heldur einnig enn áfram.

Maður leiksins í jöfnu ÍA liði var Gabriel Adersteg með 25 stig, 4 fráköst og 3 stoðsendingar.  En útnefninguna fær hann ekki síður fyrir eljusemi sína og baráttu anda sem var til mikillar fyrirmyndar.  Hjá gestunum var Arturo Rodriguez allt í öllu með 32 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar.

Nánari tölfræði má nálgast hér

Athyglisverðir punktar úr leiknum:

*Þórsarar voru stöðugir í stigaskori sínu, skoruðu 21 stig í tveimur leikhlutum og 18 stig í tveimur.

*Bæði lið tóku 31 þriggja stiga skot í leiknum, ÍA hitti 13 þeirra en Þórsarar 5.

*Átta leikmenn settu stig á töfluna hjá hvoru liði.
*Toni Cutuk leikmaður Þórs tók 20 fráköst í leiknum sem eru hans flestu fráköst í einum leik á þessu tímabili.
*ÍA skoraði í kvöld 102 stig, en þetta er í fyrsta sinn á tímabilinu sem liðið skorar 100+ stig.

*Jalen Dupree leikmaður ÍA náði sínum níunda leik í röð þar sem hann skorar 10 stig eða meira og tekur 10 fráköst eða meira í sama leiknum.

Myndasafn

Önnur úrslit kvöldsins

Umfjöllun / HGH

Myndir / Jónas H. Ottósson

Fréttir
- Auglýsing -