Stjarnan tók á móti Keflavík í annarri umferð Domino’s deildar karla í kvöld. Hlutskipti liðanna var misjafnt í fyrstu umferð, þar sem Stjörnumenn gerðu góða ferð í Skagafjörðin og sigruðu Tindastól, á meðan Keflvíkingar steinlágu fyrir Íslandsmeisturum Grindavíkur.
Keflvíkingar byrjuðu talsvert betur í leiknum og skoruðu 7 fyrstu stig leiksins. Stjörnumenn gerðu klaufaleg mistök í upphafi og gengu gestirnir á lagið. Stjörnumenn létu þó byrjunina ekki fara í taugarnar á sér og tóku frábæra 21-4 syrpu, og breyttu stöðunni í 21-11 um miðjan fjórðunginn. Fátt gekk upp hjá gestunum á þessum tímapunkti en Stjörnumenn virtust vera að skjóta í fiskiker, flest fór ofan í. Að loknum fyrsta leikhluta var staðan 27-16, Stjörnunni í vil, sem virtust hafa tögl og hagldir í leiknum.
Gestirnir komu mun grimmari til leiks í öðrum leikhluta og söxuðu vel á forskot Garðbæinga. Hins vegar mætti segja að barátta Suðurnesja pilta hafi verið of mikil því fljótlega lentu þeir í miklum villuvandræðum, og undir lok hálfleiksins voru fjórir leikmenn gestanna komnir með þrjár villur, þeir Valur Orri, Darrell Lewis, Michael Gralon og Almar. Þessi vandræði höfðu áhrif á leik Keflvíkinga og tóku heimamenn völdin á ný. Staðan í hálfleik var 49-38 Stjörnunni í vil, en þeir Justin Shouse og Marvin Valdimarsson drógu vagninn, Shouse með 15 stig og Marvin 13.
Villuvandræði gestanna héldu áfram í þriðja leikhluta og fljótlega voru þeir Valur, Gralon og Lewis allir komnir með 4 villur og um miðjan leikhlutann fauk Gralon út af með sína fimmtu. Keflvíkingar virtust frekar pirraðir á þessum villum og datt leikur þeirra mikið niður af þeim sökum. Fór svo að fyrir lokafjórðunginn hafði Stjarnan 12 stiga forystu.
Fjórði leikhluti var æði kaflaskiptur. Fyrst um sinn fóru þeir Marvin og Shouse hreinlega á kostum og komu Stjörnunni nálægt 20 stiga forystu. Þá rankaði Suðurnesjarisinn við sér og fór að þjarma verulega að Garðbæingum. Bandaríkjamaður Stjörnunnar, Brian Mills, fékk að fjúka út af fljótlega með fimm villur. Skömmu eftir það skoraði Magnús Gunnarsson þriggja stiga körfu og var þá munurinn skyndilega orðinn þrjú stig, og allt útlit fyrir æsispennandi lokamínútur. En svo varð ekki. Villuvandræði Keflvíkinga komu þeim endanlega í koll þegar þeir Darrell Lewis og Valur Orri fengu sínar fimmtu villur og eftir það var leikurinn í raun búinn. Stjarnan tók öll völd, og með Marvin Valdimarsson og Justin Shouse í broddi fylkingar innbyrtu þeir góðan 101-83 sigur.
Stjörnumenn koma gríðarsterkir í mótið og ljóst að liðið ætlar sér langt. Breidd liðsins er mun meiri en undanfarin ár og virðast menn eins og Dagur Kár Jónsson, Björn Kristjánsson og Sæmundur Valdimarsson ætla að verða drjúgir fyrir liðið. Þá skila kempur á borð við Marvin, Shouse, Jovan og Fannar alltaf sínu, og Brian Mills virðist falla vel að leik liðsins, þó hann hafi verið óheppinn með villuvandræði í kvöld. Teitur Örlygsson var að vonum sáttur með leik sinna manna.
,,Okkur langar að gera Ásgarð að alvöru heimavelli, og til þess að það gerist þurfum við að performa á heimavelli. Við viljum auðvitað fara alla leið, en leiðin þangað er löng og ströng og það virðast allir geta unnið alla í þessari deild, við erum auðvitað gríðarlega ánægðir að vinna Tindastól og Keflavík því við vitum að þessi lið munu verða miklu betri eftir því sem líður á mótið”.
Keflvíkingar virðast hins vegar ætla að taka sinn tíma í að byrja mótið af alvöru. Leikur liðsins var ansi tilviljanakenndur á köflum og svo virtist sem menn væru ekki með hugann með efnið. Að vísu mega Keflvíkingar eiga það að lykilmenn þeirra lentu í villuvandræðum, en enginn virtist tilbúinn að taka af skarið. Jón Halldór Eðvaldsson, aðstoðarþjálfari Keflavíkur var mjög óhress með byrjun sinna manna á tímabilinu.
,,Já þetta hefur verið alveg skelfilegt, það er eins og menn séu bara að spila á hálfum hraða, og ekki erum við að spila körfubolta. Við lendum reyndar í villuvandræðum í kvöld en það er samt enginn á bekknum tilbúinn að koma inn og gera vel og við verðum að fara að gera betur”.
Eftir leikinn eru Stjörnumenn með fullt hús stiga ásamt Grindvíkingum og Fjölni, en Keflvíkingar hafa byrjað tímabilið frekar illa og bíða enn eftir fyrsta sigrinum.
Mynd/ [email protected]
Umfjöllun/ Elías Karl Guðmundsson