spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaÖruggur Haukasigur á Íslandsmeisturum Njarðvíkur í Ólafssal

Öruggur Haukasigur á Íslandsmeisturum Njarðvíkur í Ólafssal

Haukar lögðu Íslandsmeistara Njarðvíkur í kvöld í 6. umferð Subway deildar kvenna.

Eftir leikinn eru Haukar í 2. sæti deildarinnar með fimm sigra og eitt tap á meðan að Njarðvík er í 3.-4. sætinu með fjóra sigra og tvö töp það sem af er tímabili.

Það voru gestirnir úr Njarðvík sem byrjuðu leik kvöldsins betur. Ná mest 13 stiga forystu í fyrsta leikhlutanum, en heimakonur ná að svara því ansi snöggt og er munurinn aðeins 4 stig eftir fyrsta fjórðung, 15-19. Leikurinn var svo í miklu jafnvægi út fyrri hálfleikinn, en þegar að liðin héldu til búningsherbergja var Njarðvík þó enn skrefinu á undan, 30-35.

Þriðji leikhlutinn er líklega eitthvað sem liðsmenn Njarðvíkur vilja gleyma. Haukar leika á alls oddi í byrjun seinni hálfleiksins, vinna fjórðunginn með 19 stigum, 27-8 og eru því sjálfar komnar með væna forystu fyrir lokaleikhlutann, 57-43. Þrátt fyrir að missa Keira Robinson, einn atkvæðamesta leikmann sinn, meiddan útaf undir lok þess þriðja gera Haukar vel í í þeim fjórða. Sigla að lokum vel öruggum 15 stiga sigur í höfn, 79-64.

Atkvæðamest fyrir Hauka í leiknum var að lokum Eva Margrét Kristjánsdóttir með 19 stig og 14 fráköst. Fyrir Njarðvík var Aliyah Collier best með 26 stig, 18 fráköst og 6 stoðsendingar.

Bæði lið eiga leik næst komandi miðvikudag 26. október, Haukar gegn Breiðablik í Smáranum á meðan að Íslandsmeistarar Njarðvíkur fá Val í heimsókn.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -