spot_img
HomeFréttirÖruggur Haukasigur á Grindavík

Öruggur Haukasigur á Grindavík

22:36 

{mosimage}

Íslandsmeistarar Hauka í Iceland Express deild kvenna í körfuknattleik fengu í kvöld afhentan deildarmeistaratitilinn eftir góðan 89-73 sigur á Grindavík að Ásvöllum. Ósigur Grindavíkurkvenna þýðir að Keflavík hefur heimavallarréttinn sín megin í fyrstu umferð úrslitakeppninnar en þar mætast Suðurnesjaliðin tvö. Haukar sitja nú á öllum titlum sem í boði eru í íslenskum kvennakörfuknattleik. Íslandsmeistarar, deildarmeistarar, bikarmeistarar, Powerademeistarar og meistarar meistaranna.

 

Helena Sverrisdóttir var ekki í byrjunarliði Hauka í dag gegn Grindavík en hún kom inn á sem sjötti maður, ekki amalegur skiptimaður það. Haukar tóku snemma forystuna þar sem Ifeoma Okonkwo setti tóninn og gerði átta stig á skömmum tíma. Haukar komust fljótlega í 14-6 en Ingibjörg Jakobsdóttir hélt Grindavík við efnið með góðum þriggja stiga körfum. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 26-18 Haukum í vil

 

Pressuvörn Hauka skilaði nokkrum auðveldum körfum eins og hún gerir reyndar í hverjum einasta leik hjá Íslandsmeisturunum. Sigrún Ámundadóttir var baráttuglöð í liði Hauka og náði mörgum mikilvægum fráköstum en Grindavíkurvörnin var á hælunum og náðu Haukar oft að prjóna sig nokkuð auðveldlega upp að körfunni. Staðan í hálfleik var 45-35 Haukum í vil og mesta furða að munurinn skyldi ekki vera meiri.

{mosimage}

 

Gestirnir úr Grindavík girtu vel í brók í þriðja leikhluta og söxuðu á forskot Hauka og náðu mest að minnka muninn niður í eitt stig 59-58 en Guðrún Ámundadóttir gaf Haukum gott veganesti inn í fjórða og síðasta leikhlutann er hún setti niður þriggja stiga körfu þegar nokkrar sekúndur voru eftir af leikhlutanum og staðan því 62-58 Haukum í vil fyrir fjórða leikhluta.

 

Of mikil orka fór í það hjá Grindavík í þriðja leikhluta að komast upp að hlið Hauka og þær gulu sprungu á limminu, Haukar gengu á lagið og höfðu að lokum öruggan 89-73 sigur í leiknum. Það voru þær Pálína Gunnlaugsdóttir og Helena Sverrisdóttir sem tóku við deildarmeistaratitilinum úr höndum Láru Árnadóttur fjármálastjóri Iceland Express.

 

Tölfræði úr leiknum hefur enn ekki borist en Ifeoma Okonkwo átti góðan dag í liði Hauka sem og Sigrún Ámundadóttir en þær Tamara Bowie og Ingibjörg Jakobsdóttir komust vel frá sínu í Grindavíkurliðinu í dag.

 

www.vf.is

{mosimage}

 

Fréttir
- Auglýsing -