spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaÖruggt hjá Þór gegn botnliðinu

Öruggt hjá Þór gegn botnliðinu

Trúlegt má telja að margir hafi átt von á þægilegum leik Þórs gegn botnliði Hamars/Þórs er liðin mættust í 11. umferð Bónus deildar kvenna í körfuknattleik í kvöld.

Fyrir leikinn voru Þórstúlkur í 4.-6. sæti með 12 stig en gestirnir á botni deildarinnar með 6 stig líkt og Aþena, Grindavík og Valur. 

En gestirnir mættu afar grimmar til leiks og tóku forystuna strax í upphafi leiks og ætluð sér að láta heimakonur hafa fyrir hlutunum. Leikur Þórs gekk afar brösuglega, slök hittni og klaufagangur í vörninni á sama tíma og gestirnir létu boltann rúlla hratt á milli manna og spiluðu fasta vörn. Þetta skilaði því að gestirnir unnu fyrsta leikhlutann með 11 stigum 18:29.

Þórsstúlkur komu betur stemmdar inn í annan leikhlutann og eftir fjögurra mínútna kafla höfðu þær snúið leiknum sér í vil 31:29. Næstu mínútur voru jafnar og það var ekki fyrr en á lokasprettinum að heimakonur náðu góðu forskoti áður en leikhlutinn var úti. Munaði nú mestu um að Þórsstúlkur skelltu í lás og héldu gestunum á mottunni og á sama tíma hrökk sóknarleikur liðsins í gang. Þór vann leikhlutann 29:8 og hafði því 10 stiga forskot í hálfleik 47:37.

Hjá Þór var Natalia frábær og komin með 15 stig, Eva Wium 11 og Amandine 10. Hjá gestunum var Hulda Ósk með 9 stig, Abby 8 og Hana 7.

Í þriðja leikhluta bættu heimakonur jafnt og þétt í forskotið og um tíma var munurinn 19 stig 62:43 en þá slökuðu þær á og gestirnir gengu á lagið og tóku að saxa á forskot Þórs sem fór niður í 12 stig áður en leikhlutinn var úti. Þór vann leikhlutann með 2 stigum 18:20 og fóru með þá forystu inn í fjórða leikhluta 65:53.

Fjórði leikhlutinn var vægast sagt undarlegur. Þegar Þór hafði náð góðu forskoti slakaði liðið jafnan á og gestirnir gengu á lagið. En þótt gestunum tækist að sækja tímabundið að Þór þá virtist sem gestina skorti úthald til að halda út. Á þessu má sjá að þegar um fjórar mínútur lifðu leiks hafði Þór 20 stiga forskot 80:60 og skiptu þá um gír þ.e. gíruðu sig niður. Hamar/Þór skoraði á lokakaflanum 2:13 og kom muninum niður í níu stig áður en yfir lauk. Gestirnir unnu leikhlutann 17:20 en níu stiga tap staðreynd 82:73. Þótt munurinn hafi ekki verið meiri en þetta þá var sigurinn öruggari en tölurnar segja til um. 

Framlag leikmanna Þórs: Amandine 22/3/3, Maddie 19/15/4, Eva Wium 18/11/5, Natalia 17/2/0, Esther 5/5/2, Emma 1/3/0. Þá spiluðu þær einnig Hrefna og Katrín Eva en þeim tókst ekki að skora.

Framlag Hamars/Þórs: Abby Beeman 18/13/10, Hana Ivanusa 13/5/3, Hulda Ósk 10/7/1, Kristrún Ríkey 8/2/0, Emma Sóldís 7/3/1, Fanney 6/2/0, Anna Soffía 4/2/2, Gígja Rut 3/0/1, Matilda Sóldís 2/2/1 og Jóhann Ýr 2/2/0. 

Tölfræði leiks

Myndasafn (Palli Jóh)

Gangur leiks eftir leikhlutum: 18:29 / 29:8 (47:37) 18:16 / 17:20 = 82:73 

Umfjöllun, myndir / Palli Jóh

Fréttir
- Auglýsing -