Háskólaliðið bandaríska TCU, þar sem Helena Sverrisdóttir leikur, var ekki lengi að jafna sig eftir ferð sína til Bahamaeyja á dögunum en í gær tóku þær á móti Louisiana-Monre og skelltu gestum sínum 65-44.
Helena var í byrjunarliðinu og var næststigahæst í liði TCU með 17 stig, 8 fráköst og 4 stolna bolta. Auk þess var hún með 2 stoðsendingar og 1 varið skot á þeim 26 mínútum sem hún lék í leiknum.
Næsti leikur TCU er þann 6. desember er þær mæta North Carolina State á útivelli.
Þá heldur dræmt gengi UTPA áfram þar sem María Ben Erlingsdóttir leikur. Liðið tapaði sínum áttunda leik í röð og hefur tapað öllum leikjunum á tímabilinu. María var í byrjunarliðinu og gerði 8 stig og tók 8 fráköst á þeim 35 mínútum sem hún lék í leiknum þar sem UTPA lá 69-58 gegn Arkansas-Pine Bluff skólanum.