Jakob Örn Sigurðarson og félagar í sænska úrvalsdeildarliðinu Sundsvall Dragons áttu ekki í teljandi vandræðum með 08 Stockholm í gærkvöldi. Lokatölur voru 92-68 Sundsvall í vil sem nú hafa 48 stig í 3. sæti deildarinnar.
Jakob Örn var næststigahæsti leikmaður Sundsvall með 18 stig á þeirri 31 mínútu sem hann lék í leiknum. Jakob setti niður fimm þrista í leiknum í 10 tilraunum, eina körfu í teignum og eitt stig af vítalínunni. Þá var hann einnig með 3 fráköst og 3 stoðsendingar.
Helgi Már Magnússon og Solnamenn verða svo í eldlínunni á útivelli í kvöld þegar Solna (4.sæti) mætir eco Örebro (9.sæti).