spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaÖruggt hjá Njarðvík gegn ÍR: Falla fallega

Öruggt hjá Njarðvík gegn ÍR: Falla fallega

Njarðvík tók á móti ÍR í Ljónagryfjunni í kvöld. Meistararnir fóru hljóðlega af stað en það fór lítíð á milli mála hvoru megin sigurinn myndi lenda þetta kvöldið. Lokatölur 79-43 fyrir Njarðvík þar sem allar í liði heimakvenna komust á blað í kvöld.

Það verður þó ekki tekið af ÍR-ingum að þó örlög þeirra séu ljós þá hættu þær aldrei, getumunurinn var vissulega mikill en gestirnir gáfu allt sitt í verkefnið og það var jákvæð orka í þeim þrátt fyrir neikvæða niðurstöðu leiktíðarinnar. Efnilegt. Ef þær klára sína leiki þetta tímabilið með jafn athyglisverðu og jákvæðu hugarfari og þær spiluðu í kvöld þá er jafnvel hægt að segja að ÍR sé að falla fallega.

ÍR byrjaði vel, gestirnir komust í 0-5 og staðan var svo 12-12 þegar leiðir endanlega skildu. Þá voru tvær mínútur eftir af fyrsta leikhluta og Njarðvík lokaði honum með 12-2 dembu og leiddu því 24-14 eftir fyrstu 10 mínúturnar.

Ljónynjur leiddu svo 48-24 í hálfleik þar sem Erna Hákonardóttir var að hitta vel með 13 stig í leikhléi fyrir Njarðvíkinga. Eftir þriðja leikhluta var staðan 63-35 og í þeim fjórða tókst Njarðvík að ná öllum á blað í stigaskori og lokatölur 79-43 eins og áður greinir.

Erna Hákonardóttir var stigahæst í Njarðvíkurliðinu með 15 stig en næstar henni voru Aliyah Collier og Lavinia Da Silva báðar með 12 stig. Hjá ÍR var Sólrún Sæmundsdóttir stigahæst með 15 stig.

Í næstu umferð mætast Njarðvík og Breiðablik en ÍR fær topplið Keflavíkur í heimsókn.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -