Þórsarar frá Akureyri mættu í DHL Höllina í kvöld eftir að hafa sigrað Hött fyrir norðan í síðustu umferð, KR ingar unnu þá Valsmenn í nokkuð jöfnum leik. Það er skemmst frá því að segja að KR var með algera yfirburði á vellinum frá fyrstu sekúndu og lét leikinn aldrei úr sínum höndum þrátt fyrir að hafa misst lykilmenn í meiðsli. Lokatölur 93 – 68.
Stigahæstur KR-inga var Sigurður Þorvaldsson sem skoraði 17 stig en hjá gestunum var Marques Oliver einnig með 17 stig og tók að auki 8 fráköst.
Tölfræðin lýgur ekki
KR voru einfaldlega betri á öllum sviðum körfuboltans í kvöld og tölfræðin eiginlega gerir því ekki nógu góð skil vegna þess að um það bil ¾ leiksins voru ruslatími. Það nægir þó að nefna að KR skutu betur utan af velli (52% vs 38%) og fyrir utan þriggja stiga línuna (50% vs 36%).
Kjarninn
Það sást strax á fyrstu sekúndum leiksins að KR voru tilbúnir í leikinn en Þórsarar ekki sem lentu fljótlega undir og áttu engin svör við KR vörninni sem hélt þeim alveg niðri. Í fyrsta leikhluta misstu KR Pavel útaf með hnémeiðsli og svo Brynjar strax í kjölfarið en það kom ekki að sök því Þórsarar virtust hafa skilið grimmdina eftir fyrir norðan og KR hélt áfram að skora að vild. Seinni hálfleikur var svo formsatriði.
Björtu hliðarnar
Það eina sem undirritaður getur tekið út úr leiknum sem er jákvætt var að það var flott að sjá ungu leikmennina fá alvöru mínútur. Menn nýttu þær auðvitað misvel en á tímabili voru allir leikmenn KR á vellinum unglingaflokksmenn. Að öðrum ólöstuðum voru þeir Orri Hlimarsson og Andrés Ísak Hlynsson bestir af ungu strákunum í kvöld. Orri með 13 stig, 5 fráköst og hörkuvörn sem skilaði honum 4 stolnum boltum að auki og Andrés skoraði 15 stig, tók 4 fráköst og gaf 3 stoðsendingar. Virkilega vel gert hjá ungu mönnunum.
Umfjöllun Sigurður Orri Kristjánsson
Mynd Ólafur Þór Jónsson