spot_img
HomeFréttirOrri var ánægður með hvernig hann byrjaði tímabilið með nýju háskólaliði "Hef...

Orri var ánægður með hvernig hann byrjaði tímabilið með nýju háskólaliði “Hef ekki spilað jafnvel áður”

KR-ingurinn Orri Hilmarsson hélt vestur um haf haustið 2020 til þess að ganga til liðs við Cardinal Stritch Wolves frá Milwaukee í bandaríska háskólaboltanum. Þar lék Orri svo þrjú tímabil áður en fyrir þetta síðasta tímabil hann skipti yfir í Webber Warriors sem staðsettir eru í Babson Park í Flórída.

Meistari með KR 2019

Orri var tvítugur þegar hann fór út en var þó með nokkra reynslu úr efstu deild á Íslandi, þar sem hann hafði leikið upp alla yngri flokka KR, með meistaraflokki þeirra, en einnig verið á mála hjá Breiðablik og Fjölni. Á síðasta tímabili sínu með Fjölni skilaði hann 8 stigum og 2 fráköstum að meðaltali í leik í úrvalsdeild. Þá var Orri á sínum tíma einnig hluti af öllum yngri landsliðum Íslands.

Með Fjölni í Ljónagryfjunni 2020

Webber Warriors eru staðsettir í Babson Park í Flórída í Bandaríkjunum og leika í Sun Conference deild NAIA hluta háskólaboltans. Líkt og áður hjá Cardinal Stricht lék Orri stórt hlutverk þetta tímabilið hjá Webber, byrjaði alla 23 leikina og skilaði 9 stigum og 2 fráköstum að meðaltali í leik, en liðið vann 16 og tapað 14 leikjum á tímabilinu.

Karfan hafði samband við Orra og spurði hann út í þetta fyrsta ár með Webber, lífið í Babson Park, afhverju hann hafi skipt og hvað framtíðin beri í skauti sér.

Hvernig fannst þér síðasta tímabil ganga hjá ykkur í Webber?

“Okkur gekk nokkuð vel miðað við að vera með fullt af leikmönnum sem höfðu aldrei spilað saman áður. Komumst í undanúrslit í conference playoffs og vorum í fyrsta sæti í conferencinum næstum allt árið sem var óvænt.”

Hvernig gekk þér persónulega á tímabilinu, ertu sáttur?

“Ég átti fínt tímabil, á fyrri hluta tímabils var ég að spila rosalega vel og hef ekki spilað jafnvel áður.”

Hvernig er stemningin í Babson Park?

“Stemningin er töluvert öðruvísi en í Reykjavík, áhorfendurnir búa til svakaleg læti þegar leikmenn hitta þrista eða einhver treður boltanum. Þeir eru líka svakalega duglegir að tala við og reyna trufla hitt liðið.”

Er körfuboltinn ólíkur því sem þú hafðir vanist heima?

“Já, töluvert öðruvísi. Það eru mjög margir sem geta skora boltanum á marga vegu. Það er minni taktík hérna úti og meiri áhersla að koma með meiri orku og ákveðni í staðinn. Það er miklu erfiðara að skora hérna heldur en heima.”

Að hvaða leyti finnst þér þú vera þróast sem leikmaður þarna úti?

“Ég er aðallega að þróast sem þriggja stiga skytta. Er að taka mjög mörg stökkskot í leik og það er það sem mér finnst gaman að gera og þjálfarinn vill að ég geri.”

Þú fylgist væntanlega vel með Subway deildinni þarna úti, hvernig líst þér á hvernig tímabilið hefur þróast, hverjir heldur þú að séu líklegastir til að verða meistarar?

“Já, ég er búinn að vera fylgjast með Subway deildinni og finnst þetta tímabil hafi verið skrýtið og oft óvænt úrslit. Það sýnir bara að deildin er mjög jöfn og flest lið geta unnið hvaða lið sem er. Sorglegt að sjá mína menn KR falla en það getur allt gerst í körfubolta.”

Nú skiptir þú um skóla frá Cardinal Stricht fyrir þetta tímabil, afhverju gerðir þú það?

“Ég skipti um skóla því mér fannst körfubolta programmið í Cardinal Stritch væri á niðurleið og sá mig ekki bæta mig lengur ef ég myndi halda áfram þar. Munurinn á Cardinal Stritch og nýja skólanum er að það eru töluvert betri leikmenn hér og sterkara lið til að keppa við.”

Verður þú áfram úti á næsta tímabili, eða hvert er förinni heitið eftir þetta?

“Ég verð áfram úti á næsta ári, ætla að klára gráðuna mína og svo kemur í ljós hvað ég geri.”

Fréttir
- Auglýsing -