Landsliðsmaðurinn Orri Gunnarsson hefur samið við Swans Gmunden í Austurríki fyrir komandi tímabil.
Orri fer til Austurríkis frá Haukum í Subway deildinni, en þar skilaði hann 11 stigum, 4 fráköstum og 3 stoðsendingum að meðaltali í leik á síðustu leiktíð. Þá hefur hann verið lykilmaður í yngri landsliðum Íslands, nú síðast með undir 20 ára liðinu sem tryggði áframhaldandi veru sína í A deild í sumar. Þá átti hann stóran leik fyrir A lið Íslands í forkeppni Ólympíleikanna á dögunum er hann sallaði 20 stigum á lið Tyrklands í Istanbúl.
Swans eru staðsettir í rúmlega 13 þúsund íbúa bæ Gmunden í norðvestur hluta Austurríkis. Félagið sjálft var stofnað 1965 en var þónokkur ár að vinna sig upp í efstu deild. Uppúr aldamótum áttu þeir svo sín gullaldarár, þar sem frá þeim þeir hafa unnið austuríska titilinn í fimm skipti, bikarkeppnina sex sinnum og í einhver skipti tekið þátt í Evrópukeppnum.